Ljósmyndasýningin Einn kjóll og 19 myndir var opnuð á dögunum í Galleríi Göngum í Háteigskirkju. Þar er til sýnis fjöldi nærmynda úr íslenskri náttúru, en Áskell Þórisson, maðurinn að baki sýningunni, fékk á ferli sínum sem blaðamaður nóg af hefðbundnari myndatökum.

„Ég tók myndir af fólki, vélum, húsum, kúm og kindum. Satt best að segja fékk ég nóg af svona myndatökum,“ segir Áskell. „Ég var farinn að endurtaka sjálfan mig, sem er merki um að maður á að fara að gera eitthvað annað.“

Í dag einbeitir Áskell sér að því að fanga smáatriðin í náttúrunni. „Það eru ótal margir að taka gríðarlega fallegar myndir af fjöllum, dölum og vötnum. Þeir eru færri sem setja myndavélina á þrífót og fókusa á grös, pöddur og grjót,“ segir hann og bætir við að hann lagi myndirnar til í myndvinnsluforritum.

Áskell stofnaði Bændablaðið og rak í tæp tólf ár þar sem hann komst á snoðir um leyndardóma Photoshop í myndvinnslu blaðsins.

„Á stundum er vatnið grænt í myndum mínum og fjöllin rauð. Það sama gildir um nærmyndir af fléttum og slíku. Hvítt verður rautt og öfugt,“ útskýrir Áskell. „Ef ég er í góðu skapi ráða gulir litir ríkjum, en svart ef ég hugsa um stöðu umhverfismála á Íslandi.“

Í kjólnum í djúpu laugina

En hvar kemur kjóllinn inn í sýninguna?

„Dóttir mín, Laufey Dóra, hafði velt fyrir sér hvernig væri hægt að auka við framboð á fötum sem væru falleg, en líka framleidd á umhverfisvænan hátt og með framtíð jarðarinnar í huga,“ segir Áskell. „Ég lagði til myndir en hún útfærði kjólana með kunnáttufólki. Við sóttum um og fengum styrk úr Uppbyggingarsjóði Vesturlands. Þar með var ekki aftur snúið. Við stukkum út í djúpu laugina.“

Áskell er í dag orðinn 68 ára gamall en segist hvergi nærri því að hægja á sér og slappa af, þrátt fyrir að áhuginn á ljósmyndum sé kannski ekki neitt agalega arðbær. „Ég þarf ekki að kvarta. Mér hefur tekist að reka þetta áhugamál mitt í kringum núllið,“ segir hann. „Það eina sem mig vantar er tími. Meiri tími. Þessa dagana er ég ásamt fleirum að undirbúa landsátak í söfnun á birkifræi. Í fyrra tókst okkur að safna nokkrum milljónum fræja – en betur má ef duga skal.“

Sýningin er opin mánudaga til fimmtudaga milli klukkan 10 og 16, á föstudögum á milli 10 og 15 og á morgun, laugardag, verður hún opin milli klukkan 13 og 16, og þá verður Áskell á staðnum til að svara spurningum gesta.