Sýningin Engar flatkökur á erfidrykkjunni stendur nú yfir í Tjarnarbíói. Um er að ræða einlægt verk sem byggir á lokaverkefni Sigríðar Eirar Zophoníasar­dóttur sem útskrifaðist í fyrravor frá sviðslistabraut við Listaháskóla Íslands.

„Ég sótti um í náminu með ákveðna rannsóknarspurningu í huga sem var einfaldlega: „Um hvað þurfum við að tala?“ Ótrúlega einföld spurning með einföldu svari!“ segir Sigríður Eir hlæjandi. „Í minni listsköpun hef ég alltaf verið að garfa við tilfinningar og sjálfa mig svolítið.“

Sigríður segir að móðir hennar hafi margsinnis í gegnum líf sitt þurft að horfast í augu við dauðann, bæði vegna andlegra og líkamlegra veikinda.

„Þá áttaði ég mig á því að það sem ég þarf að tala um er hún,“ útskýrir Sigríður Eir. „Um hana og fólk eins og hana sem er að glíma við sjálft sig.“

Enginn táradalur

Á sýningunni hittast mæðgurnar á sviði og skipuleggja jarðarför móðurinnar. Í gegnum það samtal og skipulag fléttast inn samtöl um alls konar hluti sem hafa haft áhrif á hana í gegnum lífið, hvernig dauðinn getur verið nálægur og ýmislegt annað.

Þetta hljómar ansi þungt.

„Það er málið. Þetta hljómar eins og erfiður sálfræðitími en það hefur ekki verið upplifun fólks sem hlær og hlær á sýningunni,“ segir Sigríður Eir. „Við mamma erum ansi líkar, báðar hressar og léttar týpur og svo fléttast líka mikið af tónlist inn í þetta. Þetta er enginn táradalur þótt fólk hafi gengið út tárvott líka. Fólk fer upp og niður allan tilfinningaskalann eins og í rússíbana.“

Nafn sýningarinnar er dregið af því að það eigi ekki að vera neinar flatkökur í erfidrykkjunni, engar kleinur og ekkert safnaðarheimili. Þetta eigi að vera partý.
Mynd/Margret Seema

Góðar viðtökur eignar Sigríður Eir einlægri nálgun sýningarinnar.

„Þegar maður er að tala um eitthvað sem í er mikill sannleikur og raunveruleiki þá tengir fólk við það. Öll þekkjum við af eigin nærumhverfi að þekkja fólk sem er að glíma við alls konar hluti. Það er gott að fá að tengja við það og að fá að hlæja að því.“

Tvær sýningar eru eftir í Tjarnarbíói, önnur á laugardag og hin á sunnudaginn eftir viku og á teikniborðinu er að fara með sýninguna á Akureyri og á Seyðisfjörð.

„Svo er ég að vinna með næstu sýningu sem mig langar að gera með bróður mínum,“ segir Sigríður Eir. „Hugmyndin er að gera þetta að trílógíu, eina sýningu með mömmu, eina með bróður mínum og eina með pabba.“