Þetta er fjórða íbúaþingið í Árneshreppi á síðustu þremur árum, þau hafa alltaf verið býsna vel sótt, segir Skúli Gautason verkefnisstjóri hjá Vestfjarðastofu.

„Upphaflega voru sett fram ein 35 markmið og mörg þeirra hafa náðst, enda er sigið á seinni part áætlunarinnar. Nú var áherslan á grundvallaratriðin sem eru enn óleyst og standa allri framþróun fyrir þrifum, það er þriggja fasa rafmagn og vegabætur. Síðan töldu fundargestir mikilvægt að ná samningum um stuðning við sjávarútveginn í formi sértæks byggðakvóta og aðstoð við nýliðun í landbúnaði.“

Skúli segir til fólk sem vill hefja sauðfjárbúskap í hreppnum og nýta aðstöðu sem þar er fyrir og segir alla sammála um að landið sé vanbeitt. „Það gerist nefnilega þegar ekki er nægileg beit á landinu að aðrar plöntur en þær sem fyrir voru taka yfir.“ Hann segir umræðu um virkjunarmál hafa frestast um sinn og andrúmsloft í hreppnum miklu afslappaðra en síðustu ár.

Það er hugur í Árneshreppi, að sögn Skúla „Þó meðalaldur íbúa sé hár er þeim alltaf að fjölga sem stunda strandveiðar frá Norðurfirði og hann á orðið stað í hjarta þeirra. Ég veit að nokkrir eru að velta fyrir sér hvort þeir geti dvalið þar, en það er sama hverju verið er að pæla í, kjötvinnslu, fiskvinnslu, landeldi á fiski eða öðrum hugmyndum, allt strandar á þriggja fasa rafmagni.“

Hann segir það þó komið í næstu byggðir. „Það yrði farið með línuna yfir Trékyllisheiði, úr Selárdal beina línu norður í Djúpavík. Fyrir nokkrum árum brotnuðu margir staurar á hluta heiðarinnar og þá var lögð þriggja fasa lína í jörð þar, svo það er bara hálf heiðin eftir. Um leið yrði lagður ljósleiðari og það yrði varanleg lausn á netmálum.“