Formaður Leiðsagnar, stéttarfélags leiðsögumanna, er bjartsýnn á horfur í ferðaþjónustu.

Mánudagurinn 21. febrúar er alþjóðlegur dagur leiðsögumanna. Stéttin hefur gengið í gegnum erfiða tíma í heimsfaraldrinum en sér nú fram á bjartari tíma. Friðrik Rafnsson, formaður Leiðsagnar, var staddur í pásu í bæjarferð með ferðamenn í Hallgrímskirkju, þegar Fréttablaðið náði af honum tali.

„Við erum ansi brött og það er fullt af ferðamönnum í bænum og á öðrum ferðamannastöðum. Ferðaþjónustan er að rjúka í gang aftur og það er mikið að gera fram undan langt fram á haust, heyrist mér á leiðsögumönnum,“ segir hann. „Þetta hafa verið mjög erfið ár, og enda þótt ég sé ekki mjög gamall í hettunni grunar mig að undanfarin tvö ár hafi verið þau erfiðustu í sögu leiðsögumanna og ferðaþjónustunnar á Íslandi og raunar um allan heim.“

Flestir leiðsögumenn eru lausráðnir eða í verktöku svo að þegar faraldurinn skall á fyrir tveimur árum varð staðan ansi flókin.

„Við erum flest verkefnaráðin en ekki með föst laun, sem þýðir að tekjur okkar eru sveiflukenndar eftir því. Þegar pestin skall á og leiðsögumenn urðu skyndilega verkefnalausir var flókið fyrir fólk til dæmis að sækja um atvinnuleysisbætur, en með góðum vilja Vinnumálastofnunar og yfirvalda tókst að greiða nokkuð vel úr því eftir því sem ég best veit,“ segir Friðrik. „En það breytir því ekki að þetta er búin að vera einkennileg staða og nánast sorgarferli fyrir fjölmarga leiðsögumenn og margir þeirra hafa horfið til annarra starfa. Því gæti orðið skortur á faglærðum og vel þjálfuðum leiðsögumönnum í sumar, en vegna öryggis ferðamannanna og gæða ferðanna er nauðsynlegt að ferðaþjónustufyrirtæki ráði til sín vel þjálfaða leiðsögumenn sem tala nokkur tungumál, en ekki ómenntaða byrjendur, eins og því miður var alltof oft tilfellið áður en pestin skall á.

Styrkur í fjölbreytni

Leiðsögn fagnar fimmtugsafmæli í ár en félagið var stofnað 6. júní 1972. Í dag telur Leiðsögn hátt í 800 meðlimi og stefnt er á að tímamótunum verði fagnað með hátíðisdegi einhvern tímann í haust. Friðrik segir að starf íslenska leiðsögumannsins hafi þróast mikið frá stofnun félagsins.

„Lengi vel voru flestir leiðsögumenn kennarar eða annað margfrótt fólk sem hafði gaman af að ferðast og miðla þekkingu um land og þjóð,“ segir hann. „Þá komu erlendir ferðamenn einungis hingað á sumrin, þetta var bara þriggja til fjögurra mánaða vertíð.“

Í dag eru flestir meðlimir hópsins háskólamenntað fólk sem hefur bætt við sig stífu leiðsögunámi, um sögu landsins, menningu og náttúru, framsögn, öryggismál og fleira.

Friðrik vinnur einnig sem þýðandi, en hann segir að ólíkur bakgrunnur leiðsögumanna sé einn af styrkleikum stéttarinnar.

„Styrkur okkar er hvað leiðsögumenn eru með ólíkan bakgrunn og víðtæka reynslu,“ segir Friðrik, sem starfar einnig sem þýðandi. „Einhver sagði mér að það væru tuttugu mismunandi skilgreiningar á leiðsögumönnum. Margir eru það sem við köllum sitjandi leiðsögumenn og eru með bílstjóra með sér, aðrir eru ökuleiðsögumenn, aka bæði og leiðsegja, svo eru aðrir í fjallaferðum, jöklaferðum, veiðiferðum og svo framvegis.“

Ólíkur bakgrunnur leiðsögumanna getur skipt sköpum en hægt er að fara í sömu ferð með ólíkum leiðsögumönnum sem gerir upplifunina gjörólíka, ekki satt?

„Leiðsögumaður sem fer með fólk til dæmis í Gullhring er væntanlega að segja svipaða hluti um það sem fyrir augu ber en að sjálfsögðu erum við öll ólík, segjum frá á mismunandi hátt og skjótum inn fróðleiksmolum um söguna og menninguna þegar færi gefst,“ segir Friðrik. „Það er sérlega gaman að þjóna farþegum sem koma hingað í frí og segja þeim frá dásemdum landsins, sögu okkar og menningu. Leiðsögn er eitt það skemmtilegasta sem ég hef starfað við. Stundum afar krefjandi, en mjög gefandi líka.“

Menningarknúin ferðaþjónusta

Friðrik segir að ferðamennirnir sem sæki landið heim hafi breyst með árunum, þeir eru mun fleiri en áður og fjölbreyttari. Einhver munur sé líka á ferðamönnum sem heimsækja landið á sumrin eða veturna.

„Það er kannski heldur yngra fólk sem kemur á veturna og meira ævintýrafólk. Flestir koma til að skoða náttúruna og vonast til að sjá norðurljós og snjó,“ segir hann. „Ég hef á sumrin mikið verið að leiðsegja hópum úr skemmtiferðaskipum þar sem meðalaldurinn er hærri, langflestir farþeganna eru jákvæðir og spenntir að koma hingað. Það magnaða við starf okkar leiðsögumanna er að um leið og við erum að fræða farþegana og vonandi skemmta þeim í fríinu, erum við alltaf að læra eitthvað nýtt. Þetta er hin eilífa endurmenntun, ef svo mætti segja.“

Á sumrin segist Friðrik hafa tekið eftir því að fleira og fleira fólk heimsæki landið út af menningunni. „Það er kannski stóra breytingin sem hefur orðið undanfarin ár. Mikið af höfundum okkar, tónlistarfólki, kvikmyndum og öðru hefur slegið í gegn á heimsvísu og hefur því mikið aðdráttarafl, jafnvel þótt náttúran og allt sem henni tengist vegi þyngst í ákvörðun fólks um að koma hingað til ævintýralandsins okkar.“