„Það sem gerir þetta að svo miklum stemningsdegi er að ég er ekki bara að koma beint úr skólanum til að hoppa á rennsli í Þjóðleikhúsinu heldur er ég full tilhlökkunar að fara beint í að taka upp ótrúlega skemmtilega sjónvarpsseríu líka,“ segir leikkonan Edda Björgvinsdóttir sem fagnar sjötugsafmæli sínu í dag. „Þú ert eiginlega að tala við tuttugu og átta ára gamla konu í blóma lífsins!“

Edda hefur mikla ástríðu fyrir að bæta sífellt við sig meiri þekkingu og skráði sig nýlega í háskólanám í sálgæslu.

„Fyrir örfáum árum tók ég diplóma­nám í jákvæðri sálfræði og þá var sálgæslunámið að taka á sig svipaða mynd. Þá er nú ótalið mastersnám í menningarstjórnun og margt, margt fleira – auðvitað allt samhliða hundrað og áttatíu prósenta vinnu,“ segir hún og hlær. „Þess vegna veit ég ekki hvað það er að vera deginum eldri en tuttugu og átta ára – ég bara veit ekki hvað það er!“

Krónísk grátbólga

Á föstudaginn stígur Edda á stokk í Þjóðleikhúsinu á frumsýningu sænska söngleiksins Sem á himni sem slegið hefur í gegn á hinum Norðurlöndunum og víðar. Þar er sagt frá ungum dreng sem er hrakinn úr þorpi sínu en verður heimsfrægur tónlistarmaður. Hann snýr síðar aftur í þorpið þar sem enginn tengir eða þekkir hann og hann dregst inn í kórstarfið á svæðinu og alls konar drama því fylgjandi.

„Sýningin er svo undurfalleg að maður er búinn að vera grátbólginn allt æfingatímabilið,“ segir Edda. „Þetta er allur tilfinningaskalinn og tónlistin borast svo í hjartað á manni að ég man satt best að segja ekki hvernig það er að líta í spegil án þess að vera eins og fílamaðurinn eftir æfingar. Sagan er ofsalega ljúf en líka sorgleg og það er tekið á svo mörgu fallegu og ljótu sem getur komið upp á í lífi einnar manneskju.“

Edda segir að galdurinn að baki leiksýningunni felist að miklu leyti í leikstjóranum, Unni Ösp Stefánsdóttur.

„Ég hef aldrei kynnst öðrum eins snillingi í að bora endalaust í tilfinningarnar þangað til að hún finnur djúpa, einlæga hjartsláttinn sem skiptir öllu máli,“ segir Edda.

Börnin með í vinnuna

Þrátt fyrir að vera jafn önnum kafin og hún er hefur Edda þó einhver afmælisplön á prjónunum.

„Ég ætla að reyna að grípa þau börn sem ég næ í og fara með þau í kaffi en svo tek ég þau bara með í vinnuna! Þau neyðast sem sagt til að koma með mér á fyrsta rennsli sýningarinnar sem er með áhorfendum til að knúsa mig almennilega,“ hlær Edda. „Ég fékk sérstakt leyfi til að taka þau með eins og er gert á taktu-barnið-með-í-vinnuna-deginum.“

Síðar meir mun svo gefast svigrúm fyrir frekari herlegheit.

„Þá ætlum við að kíkja til útlanda og halda partí – helst mörg partí! Það er allt á döfinni en eins og í Covid þá er maður að halda upp á stórafmælin eða útskriftirnar næstu tvö þrjú árin.“