Loks er komið að því að við getum sýnt gamanleikinn okkar, Fullorðin, í Samkomuhúsinu á Akureyri. Forsýningin er á morgun, laugardag. Fólki veitir ekkert af því að hlæja aðeins,“ segir Vilhjálmur B. Bragason leikari, sem er höfundur verksins og flytjandi, ásamt þeim Árna Beinteini Árnasyni og Birnu Pétursdóttur.

Vilhjálmur segir salinn standast sóttvarnareglur, í honum séu svalir og því sé hægt að taka tvöfaldan, leyfilegan skammt áhorfenda. „Planið var að sýna Skuggasvein í haust en það verður bara næsta haust og í samstarfi við Þjóðleikhúsið. Í staðinn ákváðum við að búa til þessa sýningu, Fullorðin, hún er léttari í vöfum, við erum bara þrjú svo það þarf ekkert marga áhorfendur til að hún beri sig.“

Í fimmtán hlutverkum

Sýningin snýst um þau vonbrigði sem margir verða fyrir þegar þeir fullorðnast, að sögn Vilhjálms. „Maður heldur í uppvextinum að allt verði svo frábært þegar vissum aldri er náð, þá geti maður ráðið öllu og svarað öllu. Það er ekki alveg það sem við blasir þegar til kastanna kemur, maður veit oft ekkert í sinn haus en vonar bara að enginn sjái í gegnum það. Yfirleitt kann maður ekki að meta það sem maður hefur í augnablikinu og heldur að allt sé betra hinum megin við lækinn,“ útskýrir hann. Segir leikarana sækja í eigin reynslubrunna en líka bregða sér í marga búninga og karaktera. „Það er hraði í verkinu, ég held ég leiki fæstar persónur, samt er ég í fimmtán hlutverkum. Þetta er stuð!“

Hvað þýðir fullorðin? spyr Vilhjálmur.

Flestar persónurnar eru fullorðnar, að sögn Vilhjálms, aðrar eru börn og unglingar, sumar meira að segja unglingar á fyrri öldum. „Það er heilmikil heimildavinna bak við þetta stykki,“ útskýrir hann og segir sýninguna taka klukkutíma og korter, ekkert hlé sé tekið til að hafa allt sem COVID-vænast.

Vilhjálmur tekur fram að ekkert COVID-grín sé í sýningunni. „Við erum bara að gera grín að hinum tímalausu fylgifiskum þess að vera til á öllum aldri. Veltum líka fyrir okkur skilgreiningunni á því að vera fullorðinn – orðinn að fullu, sem þýðir þá væntanlega að maður verður ekkert meira. Ef maður horfir á það þannig verður maður ekki fullorðinn fyrr en maður deyr. Varla er þetta spurning um að verða fullur. Það eru margir fletir á þessu.“

Árni Beinteinn verður búálfur

Birna og Árni eru venjulega búsett í Reykjavík en verða fyrir norðan í vetur, að sögn Vilhjálms. „Við vorum öll viðloðandi sýninguna Tæringu, sem er samstarfsverkefni Leikfélagsins og Maríu Pálsdóttur. Birna og Árni Beinteinn eru líka í Búálfinum sem verður settur upp eftir áramót, ef allt fer samkvæmt áætlun. Árni Beinteinn er búálfurinn. Þau áttu þannig bæði erindi norður og eru á samningi í vetur.“