Oddur býr með sinni ágætu Ebbu Katrínu Finnsdóttur, þannig að hann er ekki einn. Hún er leikari í Þjóðleikhúsinu, eins og hann, þannig að bæði eru í sama pakka meðan samkomubannið ríkir.

„Við Ebba höfum verið dugleg að fara út að hreyfa okkur, förum daglega í göngu, hlaupa- eða hjólatúr og höldum okkur aðeins við með því,“ segir Oddur og lýsir líka verkefnum þeirra fyrir Þjóðleikhúsið á meðan þar eru engar sýningar í gangi. „Leikhúsið hefur verið að þróa nýjar leiðir til að þjónusta fólk. Ein þeirra nefnist því fallega nafni Ljóð fyrir þjóð. Þar fær einn gestur prívat upplestur á ljóði eftir pöntun. Leikarinn sem flytur það stendur á Stóra sviðinu og gesturinn situr einn í stóra salnum. Nú í vikunni las Ebba ljóðið Brotnar borgir, eftir Steinunni Sigurðardóttur. Hún æfði flutninginn hér heima og las fyrir mig, enda varð hún að vanda sig og kynnast ljóðinu vel því hún þekkti það ekki fyrir. Þetta var bálkur upp á ellefu blaðsíður og tók korter í flutningi, þannig að sá hlustandi kunni að velja.“

Samdi nýtt lag

Sjálfur kveðst Oddur hafa tekið þátt í verkefni sem nefnist Einleikarinn. „Þar opna leikarar Þjóðleikhússins smá glugga inn í líf sitt. Flestir eru með símaupptöku og sýna hvernig þeir verja tímanum, læra eitthvað, baka köku, eða gera ekki neitt,“ lýsir hann og heldur áfram: „Ég er hljóðfæraleikari líka og hef spilað á gítar og trommur frá því ég var ungur svo ég samdi nýtt lag á gítarinn, þunglyndislegt lag við textann Við læðumst hægt og hljótt á tá. Ég er nefnilega í hlutverki Jónatans ræningja í uppfærslu Þjóðleikhússins á Kardimommubænum sem átti að frumsýna 18. apríl en tafir verða auðvitað á. Í laginu reyni ég að átta mig á hver Jónatan er, án hinna ræningjanna – hvernig honum líði þegar hann stendur einn og ég komst að því að hann er ósköp umkomulaus. Þar var sleginn nýr tónn – Jónatan í einangrun, elsku karlinn.“

Getur þú haldið því hlutverki við núna? „Ég vil finna það jákvæða við ástandið og nú þegar við stoppum æfingar gefst betri tími til að hugsa um hlutverkið og leikritið, kannski opnast þá eitthvað nýtt fyrir mér. Þegar maður er að æfa er svo mikil keyrsla.“

Oddur Júlíusson og Ebba Katrín léku hvort móti öðru í Atómstöðinni síðasta haust í Þjóðleikhúsinu, hann var feimna löggan og hún Ugla. Fréttablaðið/Valli

Lækning þjóðarsálar

Varstu með fleiri verkefni í gangi í Þjóðleikhúsinu? „Rétt áður en samkomubannið skall á átti að vera lokasýning á Einræðisherranum sem við vorum að sýna annað leikárið í röð. Það var farið að fækka í salnum, vegna veirunnar, og þegar einn leikari veiktist af flensu var ekki hægt að sjúkdómsgreina hann í tæka tíð svo við aflýstum sýningunni.

Svo var ég aðstoðarleikstjóri í Útsendingu sem var á Stóra sviðinu líka, vorum bara búin að sýna það verk sex sinnum, svo það átti eitthvað inni. Ebba var að leika í Þitt eigið tímaferðalag sem hefði örugglega verið í gangi langt fram á vor.“

Oddur veltir fyrir sér hvort fólk verði tilbúið að koma í leikhús um leið og samkomubanni verður aflétt eða hvort þjóðarsálin þurfi að jafna sig. „Þetta eru óvissutímar. En auðvitað er hvergi betra að lækna þjóðarsálina en í leikhúsi. Fólk getur gleymt veruleikanum á meðan og lært eitthvað í leiðinni,“ bendir hann á.

Sjálfur ákvað Oddur að læra eitthvað nýtt – að láta sér leiðast. „Undanfarin ár hefur verið mikið að gera hjá mér í leikhúsinu og þegar samkomubannið brast á, og vinnan var ekki lengur að kalla, fann ég fyrir mikilli pressu. Fannst ég verða að nota tímann í að rækta mig á einhvern hátt og það voru ýmsar hugmyndir sem flugu um kollinn á mér.

Allt í einu fann ég það verðuga verkefni að prófa að láta mér leiðast og sjá hvað það felur í sér. Áttaði mig á að mér hefur ekki leiðst í mörg ár. Maður er alltaf með snjallsímann uppi og fyllir dagana sína þannig að maður stoppar varla heldur er á hlaupum og með endalaus verkefni í gangi til að hafa alltaf eitthvað að grípa í. Ég er núna að prófa að losa mig undan þessari pressu.

Það er viss rannsókn fólgin í því að staldra við og mæta sjálfum sér upp á nýtt. Veit ekki hvað ég held það út lengi. Kannski verð ég kominn í einhverjar framkvæmdir hér heima áður en við er litið. Á þó eftir að fá samþykki fyrir því.“