Ef ég er kölluð fullu nafni held ég að það sé verið að skamma mig,“ segir Gagga, flugafgreiðslumaður í Grímsey, glaðlega þegar ég hringi í hana til að spyrja frétta og get þess að ég hafi þurft að hafa upp á réttu nafni til að finna símanúmerið.

Hún segir sumarið hafa verið miklu líflegra í Grímsey en hún átti von á. „Hér hafa margir Íslendingar verið á ferðinni, skemmtilegt fólk. Veðrið hefur þó verið köflótt, oft fínt í miðri viku en leiðinlegt um helgar. En við erum á eyju og verðum að taka því að það gusti um okkur á köflum.“

Flugið hefur gengið eftir áætlun, að sögn Göggu, en sú áætlun býður bara upp á tvær ferðir í viku en ekki daglegar ferðir eins og undanfarin sumur. „Það eru fáir erlendir túristar til að halda uppi fluginu en þegar flogið er þá kemur fólk. Íslendingar hafa líka verið duglegir að taka ferjuna frá Dalvík. Það getur verið sniðugt fyrir fólk að fljúga hingað og taka ferjuna til lands. Þetta er allt saman ágætt.“

Oft hafa jarðskjálftar út af Eyjafirði verið í fréttum. Gagga kveðst lítið hafa orðið vör við þá. „Maðurinn minn vaknaði við stóran skjálfta eina nóttina en af því mér er nokkuð sama þá er ég ekki næm fyrir þeim. Í sumar voru þeir líka langt frá okkur, miðað við oft áður. Þeir eru ekkert til að æsa sig yfir. Ég vil búa hér og tek því sem náttúran býður upp á.“

Gagga er frá Hrafnagili í Eyjafirði og flutti þaðan til Grímseyjar 1987. Spurð hvort það hafi verið viðbrigði að flytja úr því gróskumikla umhverfi svarar hún hlæjandi: „Já, hvað gerir maður ekki þegar maður er ungur og ástfanginn! Svo er þetta bara mitt heima, ég skaut strax rótum. Við byggðum ári eftir að ég flutti hingað stórt og mikið hús sem nefnist Gerðuberg og er í efri götunni. Það fylltist af lífi eina vikuna í sumar þegar öll fjölskyldan okkar kom, börnin okkar fjögur, tvær tengdadætur og sex barnabörn. Svo er íbúð í kjallaranum sem við leigjum ungu pari sem er nýbyrjað að búa.“

Fólkinu hefur fækkað verulega í eynni síðustu áratugi, að sögn Göggu. „Hér bjuggu 120 þegar ég kom og þannig var það fyrstu tíu árin, svo fór að fækka rétt fyrir aldamótin. Síðasta vetur voru hér 25 til 30 manns, en allt gott fólk. Maður stjórnar því ekki hvar fólk vill búa og því gleðst ég yfir hverjum og einum sem velur að búa hér. Það sorglegasta var að enginn skóli var í fyrravetur og verður sennilega ekki í vetur heldur, hér er bara eitt barn, sex ára.“

Gagga svarar játandi þegar hún er spurð hvort samheldni sé í eyjunni. „Auðvitað erum við íbúarnir ekki alltaf sammála, enda væri það ekki eðlilegt, en ef eitthvað kemur upp á þá er þetta eitt bræðra- og systrasamfélag og það er notalegt. Fólk gerir heldur ekkert sem kæmi nágrannanum illa eða myndi pirra hann. Þetta er mín sýn á mannlífið hér.“

Eiginmaður Göggu er Alfreð Garðarsson, borinn og barnfæddur Grímseyingur. Móðurafi hans og -amma byggðu húsið Bása 1960 og það var nyrsta byggða ból á Íslandi um tíma. Nú eiga fimm konur það og reka þar gistiheimili. Gagga segir það hafa gengið vonum framar í sumar. „Það komu fínir dagar og hópar hafa tekið húsið á leigu. Fólk kemur hingað meðal annars til að fara yfir heimskautsbaug og snerta heimskautskúluna, það bara breytir lífi fólks, því líður miklu betur á eftir. En það verður líka að trúa því, það þýðir ekkert að koma með hálfum huga,“ segir Gagga ákveðin.

Sumir vilja upplifa vetrarstemningu í eyjunni, að sögn Göggu. „Það er Þjóðverji búinn að koma fimm, sex sinnum með fólk frá Þýskalandi í mars og stoppa í tvo, þrjá daga. Þegar hann hringdi fyrst var hann spurður: „Hvað ætlarðu að gera hér yfir hávetur? hér er ekkert.“ „Akkúrat, við erum að sækja í „ekkert“, bara labba um og ekki skemmir ef það er vindur og skýin eru á fleygiferð,“ svaraði hann og fólkið er alltaf jafn glatt og ánægt þegar það fer og segist vera búið að hlaða batteríin.“

Gagga á Bása ásamt fjórum öðrum konum sem reka gistiheimilið saman. Fréttablaðið/Gun