Fyrsta sumarið sem ég man eftir mér í brúarvinnuflokki með foreldrum mínum var við Hofsá í Álftafirði eystri, þá var ég fimm ára,“ segir Gísli Eiríksson verkfræðingur, þegar hann rifjar lauslega upp samfylgd sína og Vegagerðarinnar, sem hann var að hætta hjá vegna aldurs. Lengst var hann umdæmisverkfræðingur á Vestfjörðum.

Gísli er sonur Eiríks Jónasar Gíslasonar og Þorgerðar Þorleifsdóttur sem áttu heima í Kópavogi, en bjuggu í tjaldi sumar eftir sumar er Jónas stýrði brúarvinnuflokki og Þorgerður annaðist þar matseld, ásamt fleirum. Hann kveðst hafa byrjað að vinna hjá pabba sínum fjórtán ára við Steinavötn í Suðursveit. Fram að því hafi hann verið í sveit á sumrin hjá ömmu sinni í Fossgerði á Berufjarðarströnd. „Ég er alger fornaldarmaður,“ segir hann og minnist ferðar austur með strandferðaskipi frá Reykjavík á Djúpavog, þar í póstbát sem kom út á voginn að skipinu, og úr honum í minni bát hjá afa og frænda sem sigldu fyrir Berufjörðinn og lögðu við litla bryggju. Þangað kom fjórtán ára frænka hans að sækja þá með kerruhest, búin að leggja aktygi á klárinn og spenna kerruna fyrir.

Skriðu eftir strengjunum

Tíu sumur var Gísli í brúarvinnu, tvö þeirra við hengibrúna yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi. Þar var honum meðal annars, sautján ára, rennt á stálbita út á víra sem strengdir voru yfir ána. „Við vorum tveir, okkar hlutverk var að festa bitann við strengina á réttum stað. Smám saman komu fleiri bitar og við skriðum eftir strengjunum þangað.“ Viðurkennir að aðstaðan hafi verið snúin, en gerir ekkert úr hættunni, þó að undir þeim streymdi stórfljót til sjávar. „Það var bátur á ánni og við í öryggisbeltum, þurftum auðvitað að nota báðar hendur í verkið.“

Eftir verkfræðinám við HÍ og í Danmörku kveðst Gísli hafa unnið tvö ár við teikningu brúa en svo flutt með konu sinni, Aðalbjörgu Sigurðardóttur kennara, til Ísafjarðar 1980, sem umdæmisverkfræðingur. Hann hafi strax kunnað við sig þó stjórnunarstússið væri mis-skemmtilegt. „Alltaf var samt verið að fást við eitthvað nýtt því breytingar voru örar. Vegir voru oft lokaðir yfir veturinn til að byrja með en á sumrin voru sex vinnuflokkar. Þegar ég kom vestur var slitlag á þriggja kílómetra kafla, svo bættist við það, mikilvæg brú kom yfir Dýrafjörð, síðan jarðgöng og útskot. Ég var þátttakandi í mörgu.“

Sum árin segir Gísli hafa verið snjóþung fyrir vestan. „Ef veðráttan væri eins og í upphafi 10. áratugarins væri enginn hér í dag,“ fullyrðir hann og minnist snjóflóðanna í Súðavík og á Flateyri. Kveðst hafa verið ræstur út til að opna vegi örlaganóttina sem Flateyrarflóðin féllu, haustið 1995. Göngin um Breiðadals- og Botnsheiði hafi þá sannað gildi sitt, þó ófullgerð væru, því leitarhundunum frá Ísafirði sem farið var með gegnum þau, megi þakka það að einhverjir fundust á lífi.

Býst við að flytja

Eftir að umdæmisskrifstofan á Ísafirði var lögð niður 2004 var Gísli ráðinn forstöðumaður jarðgangna á Íslandi og náði að lifa drauminn um Dýrafjarðargöng áður en hann hætti hjá Vegagerðinni. Nú er hann að sýsla við tiltekt og frágang. Ætlar hann að búa áfram fyrir vestan? „Nei, ég býst við að við flytjum, Aðalbjörg er hætt að vinna og okkar fólk er allt annars staðar. Krakkarnir vilja samt gjarnan hafa okkur hér til að hafa að einhverju að hverfa.“