Ég hef haft ægilega gaman af þessum ferðum,“ segir Unnur Guðjónsdóttir sem fyrir löngu er orðin landsfræg, ef ekki heimsfræg, fyrir ferðir Kínaklúbbs síns sem orðnar eru fjörutíu á tuttugu og sjö árum. Reyndar eru þar með taldar ferðir til Víetnam, Ástralíu, Indónesíu og Balí, Sýrlands, Jórdaníu, Brasilíu og Perú – en síðustu ellefu árin bara til Kína. Nú kveðst hún vera hætt. „Ég er nýkomin úr síðustu ferðinni sem ég auglýsi á vegum Kínaklúbbsins. En ef einhver vill að ég skipuleggi ferð þá veit ég ekkert betra en að sjá um það. Oftar en einu sinni hef ég gefið fólki ráð eftir að hafa spurt: „Viltu ekki bara hringja í kínverska sendiráðið?“ og fengið svarið: „Það vísar okkur á þig“.“

Unnur kveðst alltaf hafa lagt áherslu á að allir í hópnum fengju það mesta mögulega út úr ferðunum. „Kína er líka ótrúlegt land og hefur svo margt áhugavert að bjóða. Það er auðvitað risastórt, stærra en öll Evrópa og náttúran fjölbreytt eftir því. Í síðustu ferðinni upplifði ég sterkar tilfinningar því ég var að kveðja 97 ára kínverska ekkju sem hefur hleypt mér inn á heimili sitt með hópa í tíu ár. Hún á heima í 500 ára gömlum bæ með örmjóum götum og stóð í gættinni þegar ég var á ferðinni þar árið 2010, ég gæti ímyndað mér að það hafi verið í fyrsta skipti sem útlendingar komu í þennan bæ. Ég kann nokkur orð í kínversku svo ég spurði hana hvort við mættum koma inn og hún tók því vel. Í fyrra var ég hjá henni 31. maí, nú kom ég 4. júní, hún var í hreinni skyrtu og box með merkjum Íslands og Kína var á borðinu, hún var að bíða eftir mér. Þegar ég kvaddi hana var ég að kveðja Kína. Það var átakanlegt.“

Svíþjóð kemur sterkt við sögu í sambandi við ferðaskrifstofuna sem Unnur hefur rekið í hátt í þrjá áratugi og ástamál hennar einnig. Hún lærði nefnilega sænsku er hún bjó í Stokkhólmi með þáverandi unnusta, Ragnari Arnalds, á árunum 1959 og 60. Eftir að því sambandi lauk var hún að dansa í My Fair Lady í Þjóðleikhúsinu 1962, því hún er atvinnudansari, og kynntist þar sænskum tónlistarmanni sem hún giftist og bjó með í Stokkhólmi um skeið. En um jólin 1974 var hún ein á báti og skellti sér til Mexíkó. Þar komst hún í að aðstoða sænskan ferðahóp, vegna kunnáttu sinnar í málinu og í framhaldi af því bauð fararstjórinn, einn af eigendum Ving-resor, henni að fara með hóp til Mexíkó. „Ég sagði „já“, og nokkrum vikum síðar var ég komin þangað með 30 manns. Þannig hófst minn fararstjóraferill.“

Árin liðu og 1983 fór hún ein í þriggja mánaða ferð til Kína og fleiri Asíulanda og eftir þá ferð varð henni tíðrætt um Kína við vini sína. Tveir þeirra báðu hana að útvega sér ferð þangað, svo smávatt starfsemin upp á sig og hún stofnaði Kínaklúbb Unnar árið 1992. „Ég fór að setja saman ferðir og sýna fólki það sem mér fannst áhugavert, ekki bara þetta staðlaða sem kínverska ríkið skipuleggur. Þannig hefur þetta haldið áfram,“ lýsir hún.

Dansinn hefur verið stór þáttur í lífi Unnar, hún starfaði við hann bæði hér og í Stokkhólmi, þar sem hún rak eigin dansflokk. Segir einn af dönsurunum hafa kennt sér góða lexíu er hún hrósaði flokknum fyrir góða sýningu. „„Það er af því þú varst í svo góðu skapi,“ sagði strákurinn. Ég hafði ekki hugsað út í hversu mikil áhrif stjórnandinn hefði en þessi orð urðu mér leiðarstjarna í því sem á eftir kom.“

Unnur er kvik í hreyfingum, hjólar um borgina og í sumarbústaðinn sinn við Elliðavatn. Heimili hennar og kínverska safnið í bakgarðinum, sem opið er um helgar milli 14 og 16, eru full af listmunum og líta út sem ævintýraveröld. Hún riggar upp kínverskum matarboðum ef því er að skipta. Líka kínverskri leikfimi, Tai-Chi, og félagsmiðstöðvar borgarinnar að Vesturgötu 7 og Furugerði 1 fá hana til að halda skemmtikvöld með myndasýningum og dansi. „Ég segi alltaf „já“, svo fer ég að hugsa: Hvernig fer ég að þessu?“