Hann Jói Sig. er ekki bara leikari heldur líka söngvari. Rödd hans hljómar á nýjum diski sem tekinn var upp á tónleikum í Salnum í fyrra. Hann heitir Flottasta áhöfnin í flotanum og vísar til innihaldsins, splunkunýrra sjómannalaga, ásamt syrpu af gömlum og sígildum. Titilinn má eflaust líka heimfæra upp á flytjendurna, að minnsta kosti segir Jóhann hljóðfæraleikarana á plötunni vera einvalalið og líka kvintett sem syngi með honum. 

Nýju lögin eru flest eftir Friðrik Sturluson, bassaleikara í hinni víðfrægu sveit Sálinni hans Jóns míns, að sögn Jóhanns. „Friðrik á tíu lög og alla textana, Gummi Jóns, vinur hans úr Sálinni gerði tvö lög og Gunni Þórðar eitt. Svo hnýttum við saman syrpu úr þekktum sjómannalögum eins og Landleguvalsinum og Það gefur á bátinn við Grænland.“ 

Í síðarnefnda textanum, sem er eftir Kristján frá Djúpalæk, koma fyrir ljóðlínurnar 

„En geigþungt er brimið við  Grænland og gista það kýs ekki neinn, hvern varðar um draum þess og vonir og þrár sem vakir þar hljóður og einn …“ Jóhann segir nýju textana einmitt fjalla dálítið um líðan sjómanna í kulda og ágjöf úti í ballarhafi, hugsandi heim, og einnig um áhyggjur ástvinanna í landi. 

„Þetta er aðeins annar vinkill á sjómannalífið en oft var sungið um í den,“ segir Jóhann.  

„Mér finnst svolítið gott að skila þessari plötu af mér vegna föður míns sem stóð sína pligt á sjónum í 25 ár. Þó okkar samband hafi verið brokkgengt þá syng ég þetta fyrir pabba. Eitt úthaldið hjá honum stóð í þrettán mánuði, þá var veitt við Grænland, siglt með aflann til Þýskalands, stoppað í 36 tíma og stímt aftur á miðin. Þetta var auðvitað rosalegt.“ 

Platan fæst í föstu formi í Hagkaup, að sögn Jóhanns. „Svo er hún á netinu, nú renna öll vötn til Spotify.“ 

Jóhann tekur þátt í Ríkharði þriðja, jólaleikriti Borgarleikhússins, í þriðja sinn. 

„Fyrst var það í  Þjóðleikhúsinu 1986, þá með öllu járninu, skjöldum og spjótum. Við klæddum hver annan í brynjur og hjálma og mikill tími fór í að æfa bardaga með öllum vopnunum. Næst var það líka í Þjóðleikhúsinu 2003.  Þá var Hilmir Snær  í titilhlutverkinu en  Helgi Skúlason ’86, nú er það í höndum Hjartar Jóhanns Jónssonar.“ 

Jóhann segir  leikhópinn fara minnkandi eftir því sem tímar líði og margir hafi fleiri hlutverk en eitt. „Ég leik Hasting lávarð og borgarstjórann, auk annarra hlutverka. Svo er ég að lesa Harry Potter. Búinn að lesa sex bækur inn á hljóðbók og er með þá sjöundu og síðustu.“ 

Það er sem sagt ekki iðjuleysinu fyrir að fara hjá Jóhanni. Hann kveðst hafa verið í sveit öll sumur og alist upp við að taka á því. „Viðkvæðið hjá einum bóndanum var ávallt: „Þegar þú ert búinn í þessu komdu þá til mín svo ég geti látið þig í annað verk!“