„Þegar ég upp­götvaði á síðasta ári að ég ætti stór­af­mæli á þessu ári, þá ætlaði ég á tíma­bili að halda dá­lítið veg­lega upp á það. Ég hef aldrei gert það og nú átti al­deilis að láta verða af því. Svo var ég, fyrir nokkru síðan, runninn al­ger­lega á rassinn með það. Ég bara hrein­lega nennti því ekki, segir Illugi Jökuls­son rit­höfundur sem stendur á sex­tugu. Vegna letinnar kveðst hann ekki hafa ætlað að gera neitt sér­stakt í dag nema kannski hitta sitt nánasta fólk. „Þannig að það stóð ekkert mikið til – nú verður það enn minna og lík­lega bara ekki neitt. Það á að heita svo að ég sé í á­hættu­hópi vegna kóróna­veirunnar, þannig að ég reyni að vanda mig alveg sér­stak­lega við að hitta sem fæsta. Auð­vitað rekast börnin mín tvö, sem eru hér á Ís­landi, inn öðru hvoru en ég hitti fáa aðra. Við erum heima hjónin, Guð­rún og ég og svo kettirnir. Aðrir eru það nú ekki og ég hugsa að af­mælis­gestir verið ekki fleiri.“

Þó ekkert sé teitið breytir það ekki því að Illugi er búinn að lifa í 60 ár og af­reka það að gefa út tugi bóka. Þetta bendi ég honum á. „Ég er búinn að lifa í 60 ár eins og þú segir. Bækurnar... jú, maður verður að vinna fyrir sér með ein­hverjum hætti og þetta er það eina sem ég kann.“

Ertu ekki með eitt­hvert stór­virki í smíðum núna?

„Nei, ekkert sér­stak­lega, bara sams­konar dútl og verið hefur. Er alltaf í ein­hverju grúski en ekki í neinu sem er í frá­sögur færandi þessa vikuna, held ég.“

En nú er verið að hvetja Ís­lendinga til að slá heims­met í lestri um þessa helgi, ertu með eitt­hvað gott á nátt­borðinu að líta í?

„Það eru svona um þrjá­tíu bækur á nátt­borðinu en ég les engin reiðinnar býsn lengur nema í sam­bandi við þau verk­efni sem ég er með hverju sinni. Ekki eins mikið eins og ég gerði að minnsta kosti.“

Hefurðu ferðast mikið, Illugi?

„Alls ekki. Ég held þú verðir að finna þér ein­hvern skemmti­legri við­mælanda!“

Fórstu ekki með móður þinni, Jóhönnu Kristjóns­dóttur, til Austur­landa á sínum tíma?

„Jú, ég gerði það, samt ekki nema tvisvar. Ég hef aldrei verið illa haldinn af ferða­bakteríu og ekki lagt mig neitt eftir því að ferðast. Hver veit nema ég taki upp á því í ellinni að leggjast í ferða­lög, ef ég lifi kóróna­veiruna af? Muni jafn­vel líta á það sem mitt sér­staka verk­efni að koma fótunum undir f lug­fé­lögin á ný?“

En áttu þér ein­hvern upp­á­halds­stað á Ís­landi?

„Við eigum nokkurra hektara spildu við Heklu. Höfum ekki komið því í verk að byggja þar bú­stað enn þá en ég er þar gjarnan að setja niður tré á sumrin. Þegar ég var að hugsa um að halda stór­veislu í til­efni sex­tugs­af­mælisins var auð­vitað ein á­stæðan sú að mig langaði að hitta alls konar fólk sem ég hafði kynnst á lífs­leiðinni, önnur á­stæða var sú að ég ætlaði að fara fram á að allir gæfu mér tré í af­mælis­gjöf, sem ég gæti síðan gróður­sett upp við Heklu. En nú verður ekkert af því. Þetta er samt minn upp­á­halds­staður og þangað ætla ég í sumar og setja eitt­hvað niður.

Hefur þú upp­lifað Heklu­gos?

„Ekki úr spildunni okkar. Þó skömm sé frá að segja er ég alltaf hálf­partinn að vona að Hekla bæri á sér þegar ég er þar að gróður­setja, en það hefur ekki gerst enn þá – sem betur fer auð­vitað. Maður má ekkert hugsa svona. Ég sá strókinn úr fjallinu árið 1990 og árið 1970 fór ég að gos­stöðvunum með afa og ömmu. Þannig að ég hef upp­lifað Heklu­gos.“