Ég er alveg í skýjunum,“ segir Hlynur Páll Pálsson þegar hann er spurður hvort hann sé hamingjusamur með nýja embættið sem framkvæmdastjóri Íslenska dansflokksins. Kveðst hafa verið að vinna í leikhúsi nánast frá því hann útskrifaðist úr menntaskóla. Ekki samt sem dansari. „En ég var framkvæmdastjóri Reykjavík Dansfestival á tímabili og kynntist líka dansinum í náminu mínu á Sviðslistabraut Listaháskólans, sem hét þá Fræði og framkvæmd. Ragnheiður Skúladóttir, sem ég er að taka við af núna, byrjaði með þá braut og þar hófst danskennsla hér á landi á háskólastigi. Ég vann svo í Þjóðleikhúsinu um tíma og hef verið í Borgarleikhúsinu í tíu ár, þannig ég er ekki að fara langt!“ segir Hlynur sem var aðstoðarleikstjóri söngleiksins Matthildar og kveðst vera rétt að lenda eftir þá törn.

Íslenski dansflokkurinn er jú með heimili í Borgarleikhúsinu og þar í kjallaranum er skrifstofa hans. „Dansflokkurinn er opinber stofnun og það er ýmislegt sem ég þarf að læra en hún Ragnheiður mun kenna mér tökin á þessu á næstu vikum.

Svo þarf ég að setjast niður með Ernu Ómarsdóttur listdansstjóra og setja mig inn í verkefni dansflokksins sem fram undan eru. Veit að það er fullt af sýningarferðum á döfinni. Við erum að frumflytja verk sem heitir AION á Point-tónlistarhátíðinni í Gautaborg í maí, undir tónlist Önnu Þorvaldsdóttur sem Sinfóníuhljómsveit Gautaborgar spilar. Það verður ekki flutt hér á landi fyrr en í apríl á næsta ári og þá með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ég fékk að vera á fyrstu æfingu hjá henni í Eldborg í síðustu viku með dansflokknum, sveitin var nýkomin með nóturnar og Erna á eftir að semja dansinn, með dönsurunum, við tónlistina, sem var að sjálfsögðu tekin upp. Þetta var magnað og lofar góðu.“