Þegar ég var búsett erlendis í sjö ár með börnin mín tvö var ég alltaf að segja þeim frá Íslandi og útskýra fyrir þeim margt sem þau fóru á mis við, því þau voru auðvitað í erlendum skóla. Ég kepptist við að kenna þeim Íslandssöguna og lesa og lesa. Þá áttaði ég mig þá á því hversu lítið er minnst á konur í sögunni nema sem eiginkonur, dætur, systur eða ástkonur karla. Mér fannst nauðsynlegt að dusta af konunum rykið og segja Íslandssöguna út frá þeim, þannig að ég varð að skrifa þetta. Efnið kallaði svo sterkt á mig að ég hafði ekkert val.“

Þannig lýsir Nína Björk Jónsdóttir tildrögum þess að hún skrifaði bókina Íslandsdætur, sem er nýkomin út hjá Sölku. Hún er forstöðumaður viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins sem aðstoðar íslensk fyrirtæki við útflutning vöru og þjónustu. Dvöl hennar erlendis tengdist starfi hennar, fyrst í París og svo í Genf, sem staðgengill sendiherra.

Ekkert sjónvarp í átta mánuði

Nína Björk kveðst hafa haft gaman af skrifum frá því hún var lítil stelpa, en Íslandsdætur sé það fyrsta sem hún gefur út. „Ég hef skrifað nokkur leikrit sem áhugaleikfélög hafa sett upp en nú fór ég að sanka að mér efni um íslenskar konur sem höfðu skarað fram úr á einhvern hátt á öllum tímum og búa til lista. Hugsaði: Hver var fyrsta konan sem varð flugmaður? fyrsta leikkonan? skáldkonan? og þannig áfram. Ég las allt um konur sem ég komst í og þurfti að hafa dálítið fyrir því að finna konur frá ákveðnum tímabilum.“

Verkefnið sat á hakanum um tíma, að sögn Nínu Bjarkar. „Ég flutti heim til Íslands í fyrrasumar en alltaf voru konurnar að minna á sig þó ég drægi endalaust að halda áfram að skrifa. Svo fór ég á ball í Iðnó í janúar síðastliðnum og hitti þar útgefanda hjá Sölku úti á dansgólfinu. Ég vék mér að henni og spurði hvernig henni litist á hugmyndina mína. Nokkrum dögum síðar var ég komin með vilyrði um að ef ég myndi klára bókina myndi Salka vera tilbúin að gefa hana út. Þá var komin alvara í málið og ég tók fyrir eina konu í einu. Horfði ekki á sjónvarp í átta mánuði og allur minn frítími fór í þetta verkefni, en það var engin kvöl því mér fannst svo skemmtilegt að kynnast öllum þessum konum betur og læra margt í leiðinni. Þær voru, auk barnanna minna, minn félagsskapur í kófinu!“

Allar voru börn og unglingar

Eftir efnisyfirlit og inngang hefst bókin á frásögn um Hallveigu Fróðadóttur sem flutti til Íslands um 870, ásamt manni sínum Ingólfi Arnarsyni. Lokakaflinn fjallar um Margréti Láru Viðarsdóttur markadrottningu. Á milli þeirra eru 42 konur. Hver og ein fær eina opnu með texta öðrum megin og teikningu hinum megin, sem myndlistarkonan Auður Ýr Elísabetardóttir á heiður af.

„Auður Ýr nær persónuleika kvennanna vel og gefur þeim öllum sitt einstaka og fallega útlit,“ segir Nína Björk og heldur áfram. „Ég vona að börn sem lesa og skoða bókina átti sig á því að allar þessar konur voru líka börn og unglingar einu sinni, áttu sína drauma og vildu prófa ýmislegt. Ég reyndi að hafa þær sem víðast að af landinu og úr ólíkum geirum, úr vélageiranum og iðngreinum, íþróttum, stjórnmálum, listum, vísindum, ritmenningu, og því ættu öll börn og sérstaklega stúlkur að geta fundið konur sem höfða til áhugasviðs þeirra,“ segir Nína Björk og kveðst vona að lesendur eigi eftir að skemmta sér jafn vel við lesturinn og hún gerði við skriftirnar. „Saga Íslands kemur einnig svo sterkt fram í gegnum sögu kvenna, hvort sem það er landnámið, Sturlungaöldin, enska öldin, Móðuharðindin, flutningar Íslendinga til Vesturheims eða menning síðustu ára,“ bendir hún á. „Allt blandast þetta og hefur áhrif á líf kvennanna.“

Nína Björk Jónsdóttir, rithöfundur.
Guðrún Helgadóttir rithöfundur.Mynd/Auður Ýr Elísabetardóttir