„Ég hef alltaf hlakkað til þess að verða fimmtug og er afar þakklát fyrir að ná þeim aldri,“ segir Oddný Eir Ævarsdóttir, afmælisbarn dagsins, og bætir við að hún vonist til að geta fagnað fleiri stórafmælum enda eigi hún ungan son. Hún heldur í gamla afmælishefð í tilefni dagsins. „Það hefur verið siður hjá mér að fara á skauta á afmælinu og mér sýnist ég geta haldið því til streitu. Ef það er búið að ryðja þá er það Tjörnin eða Ingólfstorg.“

Afmælisdagskránni er þó ekki lokið.

„Mér var boðið að koma og fylgjast með hraðskákmóti kvenna, svo ég kíki kannski þangað,“ segir Oddný sem velti því fyrir sér að halda stóra veislu á afmælinu. „Ég bíð aðeins með það en hef kannski vöfflukaffi fyrir mína nánustu í staðinn. Svo ætlum við mæðginin að fara til Parísar og heimsækja Disneyland í tilefni tímamótanna einhvern tímann með vorinu.“

Koparsnákar og norðurljós

Þessa dagana er Oddný að koma fótunum undir sína eigin bókaútgáfu sem nefnist Eirormur.

„Það er í höfuðið á þessum undarlega koparsnáki sem guð benti Móses á að búa til og setja á stöng þegar snákafaraldurinn gekk yfir,“ útskýrir hún. „Ég hef haft tilhneigingu til að fresta útgáfu og halda áfram að vinna að verkunum svo það er mikið uppsafnað hjá mér. En ég er að gefa út þrjár ljóðabækur loksins núna. Ég er mikil seinlöpp og ég er að vona að ég muni hætta því núna þegar ég er orðin fimmtug.“

Oddný er fljót að rifja upp sína uppáhalds afmælisminningu.

„Ég man það þegar við bjuggum upp á Hólsvöllum, fjölskyldan, þá áttum við að fara í jólaveislu í Möðrudal á afmælisdaginn minn þegar við festum bílinn í skafli,“ segir hún. „Við urðum að ganga stóran hluta leiðarinnar yfir Möðrudalsöræfin. Það voru ofboðslega mikil norðurljós og stjörnubjart, svo það hlýtur að vera mín fallegasta afmælisminning.“