Í dag fer fram ráðstefna í Þjóðskjalasafni Íslands í tilefni þess að sjötta og síðasta bindi af skjalasafni Landsnefndarinnar fyrri 1770-1771 er komið út. Skjalasafnið telur um fjögur þúsund handritaðar síður á 18. aldar dönsku og íslensku sem er afrakstur rannsóknarleiðangurs Landsnefndarinnar sem dönsk stjórnvöld sendu til Íslands til að taka út íslenskt samfélag.

„Það sem er áhugavert við nefndina og þetta starf er hve heildstæð mynd er fengin af íslensku samfélagi,“ segir Hrefna Róbertsdóttir þjóðskjalavörður sem ritstýrði útgáfunni ásamt Jóhönnu Þ. Guðmundsdóttur. „Það er verið að skoða stjórnkerfi, samgöngur, efnahag, náttúruauðlindir, handverk, heilbrigðismál – í rauninni allar hliðar samfélagsins. Þetta var gert til að afla þekkingar inn í danska stjórnsýslu um hvernig skyldi snúa sér með þessa hjálendu ríkisins.“

Aðferðin sem Landsnefndin notaði til að afla þessara víðfeðmu upplýsinga er líka áhugaverð.

„Landsnefndin sendi prentaða tilskipun og óskaði eftir því að allir landsmenn hefðu skoðun á þessum málum. Það voru prentuð 2.600 eintök af þessari tilskipun og öllum prestum og sýslumönnum gert að lesa hana upp á þingum og í kirkju svo að almenningur fengi að vita að þetta væri í gangi,“ segir Hrefna. „Nefndin fór líka um landið og hélt fundi þar sem fólk gat skrifað fleiri bréf. Þessi leið þeirra að fara um og vera sýnilegir hafði áhrif.“

Skjalasafnið er dýrmæt innsýn í þjóðaranda Íslands á þessum tíma. Þótt það sé margt áhugavert í safninu og Hrefna eigi erfitt að gera upp á milli barnanna sinna þá hefur hún mikinn áhuga á bréfum sem tengjast kvaðavinnu.

„Landeigendur gátu sett kvaðir á þá sem leigðu jarðirnar um vinnu án endurgjalds,“ segir hún. „Þetta gátu verið fiskveiðar, heysláttur, flutningar og annað. Það er áhugavert að sjá hvernig þetta hefur breyst í landinu því þetta var aðeins annað hagkerfi en síðan varð á 19. og 20. öld. Það er athyglisvert að sjá hvernig þessi ókeypis vinna virkaði í samfélaginu og tengist eignum og hvernig var hægt að hafa völd yfir þeim sem leigðu hjá þér.“

Á ráðstefnunni í dag fer fram formleg útgáfa af þessu síðasta bindi safnsins og skjölin verða gefin út í samvinnu við Sögufélag og Ríkisskjalasafnið í Danmörku.