Það var ótrúlega gaman á æfingunni heima hjá mér í vikunni. Ég er með svoddan þrusufólk í tónlistinni, það gerir þessa dagskrá svo flotta.“ Þetta segir Guðrún Ásmundsdóttir leikkona um viðburðinn Tónskáldið og móðir hans, sem hún er höfundur að. Hann snýst um mæðginin Sigvalda Kaldalóns og Sesselju Sigvaldadóttur og fer fram í kvöld – að sjálfsögðu í Kaldalóni í Hörpu – og hefst klukkan 19.30. „Þetta er sögudagskrá því ég er búin að grúska mikið í heimildum og hún gefur innsýn í tímana sem tónskáldið lifði. Svo lyftir tónlistarfólkið öllu upp á hærra plan,“ lýsir Guðrún. „Í heild er þetta ævintýri og við skreytum það með myndum, meðal annars úr Djúpinu.“

Guðrún kveðst hafa fengið þjálfun í að gera dagskrá þau sautján ár sem hún var með opið hús hálfsmánaðarlega fyrir Blindrafélagið. „Ég nefndi þessar stundir Fjársjóð minninganna, reyndi að gera eins og vel og ég gat og fékk mikla hlýju að launum. Með leyfi félagsins var ég líka oft með söngvara og meðleikara. Nú fór ég í svipaða vinnu og safnaði að mér heimildum um Sigvalda Kaldalóns. Þá heillaðist ég af mömmu hans enda skrifar maðurinn hennar í dagbók að mesta gæfa hans í lífinu hafi verið að eignast tápmikla konu. Hún var líka hjartahlý og elskaði tónlist og ljóð og í gegnum hana verður Sigvaldi fyrir sterkum áhrifum. Ég kynntist líka stjúpsyni Sigvalda sem sagði mér margar sögur.“

Sigvaldi fæddist í litlu húsi við Garðastræti, rétt hjá Hallveigarstöðum, og átti þar heima fyrstu árin sín, að sögn Guðrúnar. „Húsið var kallað Vaktarabærinn og ég gef borgaryfirvöldum hrós fyrir að hafa gert það fallega upp. En það er ekki fyrr en um þrítugt sem Sigvaldi kom út úr skápnum sem tónskáld. Hann sagði frá því í blaðagrein þegar hann var sextugur að það hafi verið hið dýrðlega fólk við Ísafjarðardjúp sem sýndi héraðslækninum sínum slíka virðingu og vináttu að hann, þessi hlédrægi maður, lagði í að spila fyrir það lögin sín. Við erum líka sammála um það í hópnum sem kemur að þessari dagskrá að það er vináttan og kærleikurinn sem gerir það að verkum að listamenn blómstra.“