Menningarmánuði í Árborg lýkur nú um helgina en þar hafa fjölbreyttir viðburðir staðið til boða. Byggðasafn Árnesinga býður á sunnudaginn upp á leiðsögn um sýninguna Missi þar sem persónulegir munir sem urðu að dýrgripum eftirlifenda þegar ástvinir þeirra féllu frá eru til sýnis.

„Sýningin er sett upp á óvenjulegan hátt að því leyti til að sagan á bak við gripina og tilfinningagildi þeirra fær að njóta sín,“ segir Linda Ásdísardóttir sýningarstjóri og nefnir sem dæmi leikföng ungrar stúlku, Margrétar, sem lést átta ára gömul árið 1909. „Í stað þess að vera dæmigerð leikföng stúlku frá þessum tíma þá fá gripirnir að vera táknrænir fyrir þann harm foreldranna sem dótturmissirinn var. Hlutirnir eru heiðraðir í samhengi við tilfinningagildi eigenda þeirra.“

Linda segir að þótt aðalsöguhetjur sýningarinnar sé fólkið sem átti gripina þá sé sýningin í rauninni meira um missinn og eftirlifendurna.

1Helgi.jpg

„Fólkið geymdi þessa gripi eins og gullið sitt, í litlum kistum, skrifborðsskúffum eða öðrum fylgsnum,“ segir hún. „Gersemin geymdust þá í marga áratugi þangað til allir eru fallnir frá sem þurfa á þeim að halda til að minnast ástvina sinna. Svo breytast í þeir í safngripi.“

Persónusagan í sviðsljósið

Linda segir að í undanfara sýningarinnar hafi farið fram mikil leit að bakgrunni gripanna. „Hvaða fólk var þetta sem gaf gripina og hver geymdi þá?“ segir hún. „Það var mesta úrvinnslan.“

Linda segir að þótt þetta fari ekki fram hjá safnastarfsfólki þá séu tilfinningalegir munir lítið settir í sviðsljósið.

„Við geymum oft gripi sem einhvers konar tákn fyrir gamla verkmenningu eða samfélag sem er horfið,“ segir hún. „Á þessari sýningu fær persónusagan að skína í gegn, eitthvað sem við getum öll tengt við.“

Fyrir sýninguna reyndi Linda að velja fólk af ólíkum bakgrunni.

„Þarna eru börn sem dóu mjög ung, eins og sveitastrákurinn Helgi sem dó úr botnlangakasti og Helga litla sem dó í bílslysi en líka Kristinn sjómaður sem fórst á hafi, Kristín sem dó af barnsförum og Sigurbjörg úr berklum,“ segir hún. „Þótt þetta gerist við ólíkar aðstæður held ég að allir kannist við að geyma viðlíka gripi um ástvini sína. Persónur á sýningunni eru allt fulltrúar fyrir harmdauða og við tengjum öll við þessa leið við að varðveita minningu.“