Það var meiningin að halda upp á afmælið, ég var með það á prjónunum en COVID-ferlið hefur gert að verkum að af því getur ekki orðið. Því verður bara nánasta fjölskylda mín sem hittist,“ segir Árni Þór Sigurðsson sem er sextugur í dag.

Undanfarið hefur Árni Þór verið sendiherra í Finnlandi og er tekinn við sambærilegri stöðu í Moskvu. Hann kveðst vonast til að komast þangað út í kringum 10. ágúst. „Upphaflega var meiningin að ég færi beint frá Helsinki til Moskvu í byrjun sumars en af COVID-ástæðum var því slegið á frest svo ég kom heim 10. júní og tók sumarfrí sem var ágætt.“

Enn er lokað fyrir flug- og lestarsamgöngur inn og út úr Rússlandi, en Árni Þór ætlar að keyra sjálfur yfir landamærin frá Finnlandi. „Það er leyfilegt þeim sem á annað borð mega fara inn í landið og ég er einn þeirra. Ég á bíl í Helsinki, þangað ætla ég að fljúga gegnum Osló. Það er verið að aflétta sóttkvínni í Rússlandi að einhverju leyti og mér sýnist ég þurfa bara að fara í prufu á heilsugæslu eftir þriggja daga veru í landinu. En mér er sagt að fólk sé með hanska og grímur þegar það fer út í búð.“ Fjölskyldan verður eftir heima á Íslandi. „Við konan mín höfum verið í fjarbúð síðustu ár og verðum áfram og börnin eru uppkomin,“ lýsir hann.

Árni Þór segir bæði gefandi og lærdómsríkt að vera sendiherra. „Það reyndi mikið á utanríkisþjónustuna í vor, þegar Íslendingar um víða veröld streymdu heim út af faraldrinum, en ég held að hún hafi staðist það próf. Undir venjulegum kringumstæðum er starfið fjölbreytt, snýst um viðskipti, menningarsamskipti og svo borgaraþjónustuna. Það eru engir tveir dagar eins.“ Hann kveðst taka við af Berglindi Ásgeirsdóttur. „Berglind hefur verið að gera góða hluti. Þrátt fyrir viðskiptabann á sjávarafurðum okkar í Rússlandi eru heilmikil umsvif á öðrum sviðum, meðal annars í hátæknibúnaði og þekkingu. Mitt hlutverk verður að viðhalda þeim og byggja ofan á. Menningarsamskiptin eru mikilvæg líka og bæði Ragnar Kjartansson og Björk verða í Rússlandi á næsta ári.“

Verkefnin fram undan eru spennandi og ögrandi að mati Árna Þórs en hann segir ekki ákveðið hversu lengi hann verði í Moskvu. „Algengt er að fólk sé fjögur ár á sama pósti en ég var tvö og hálft í Helsinki, það var í styttri kantinum. Kannski helgaðist það af því að Moskva var laus og það þótti heppilegt að ég færi þangað með minn bakgrunn. Ég stúderaði alþjóðastjórnmál við Háskóla Íslands og þar var rússnesk utanríkisstefna mín sérgrein, þannig að það hentaði að mörgu leyti að ég flytti þangað. Í Helsinki var ég líka sendiherra fyrir Eystrasaltsríkin og Úkraínu og var með augun á þessu svæði.“ Aðspurður kveðst hann bjarga sér á rússnesku því eftir grunnnám í hagfræði og málvísindum í Osló og Stokkhólmi á sínum tíma hafi hann haldið til Moskvu að læra hana. „Ég er svona sæmilegur í rússneskunni,“ segir hann. „En þarf að dusta af henni rykið!“