Nær öllum áramótabrennum Íslands hefur verið aflýst í ljósi samkomu­takmarkana. Áramótabrennan virðist vera séríslenskt fyrirbæri sem teygir sig þó ekki jafnlangt aftur og maður gæti haldið.

„Þetta er ekki mjög gamall siður hér á Íslandi, en að kveikja bálkesti er hátíðar­athöfn víða um heim,“ segir doktor Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir þjóðfræðingur, og nefnir sem dæmi Jónsmessu, kyndilmessu og allraheilagramessu. „Hérlendis þekkjum við ekki dæmi um áramótabrennur fyrr en seint á átjándu öld eða í byrjun þeirrar nítjándu.“

Í Sögu daganna eftir Árna Björnsson þjóðháttafræðing er sagt frá fyrstu áramótabrennunni sem sögur fara af á Íslandi. Það var árið 1791 þegar skólapiltar við Hólavallaskóla í Reykjavík söfnuðu saman timburrusli og kveiktu í á hæð sem þeir kölluðu Vulcan, sem merkir eldfjall á latínu.

„Það var nú kannski meira fylleríssamkoma,“ segir Ólína og hlær. „Síðar fór siðurinn að taka á sig menningarlegri blæ. Fólk fór að klæða sig upp sem álfa og jólasveina, dansa og fara í blysfarir, til dæmis á þrettándanum. Við Íslendingar kveikjum elda um jól og áramót en ekki til dæmis á Jónsmessunni, sem mjög rík hefð er fyrir annars staðar á Norðurlöndum.“

Jónsmessubrennur hjá nágrannaþjóðum okkar hafa oft tilvísanir í galdra og nornabrennur. „Mér finnst það nú ekki fallegur siður, þeir atburðir eru allt of raunverulegir í sögunni,“ segir Ólína.

Þótt áramótabrennan sé óræðari hefð hér á Íslandi hefur hún verið föst við lífið hér á landi í um 200 ár.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir þjóðfræðingur.

Álfar, kýr og dauðir menn

Álfar, huldufólk og aðrar vættir hafa lengi verið tengdar jólum og áramótum, sem Ólína segir að sé kynngimagnaður árstími.

„Nýársnóttin hefur lengi verið álitin dulmögnuð nótt, tíminn þegar vættirnar vakna,“ segir hún. „Það er rík þjóðtrú að á nýársnótt og þrettándanum leysist dularmögnin úr læðingi, þannig að álfar eru mikið á ferðinni á þessum dögum.“

Samkvæmt þjóðtrú eiga dauðir það líka til að rísa upp úr gröfinni á þessum tíma árs. „Áður var talað um að kirkjugarður rísi á nýársnótt,“ segir Ólína.

Þá fara sögur af því að álfar og huldufólk hafi haft vistaskipti í kringum nýárið og heimsótt bæi þegar heimilisfólk fór í messu. Álfarnir skildu jafnvel eftir fagra hluti, ef sá sem gætti bæjarins lét þá í friði, en ef ekki gat farið illa fyrir viðkomandi.

„Huldufólkið var hin þjóðin í landinu, eins konar óskaþjóð, og álf­heim­arnir draumaheimur fátæka mannsins,“ segir Ólína. „Álfar bjuggu í betri híbýlum, klæddust betri fötum og höfðu meira vald á lífi sínu en alþýðumaðurinn. Ef menn hjálpuðu álfum þá launaðist þeim mjög vel fyrir það, en hefndist líka grimmilega ef þeir reyndust þeim illa. Huldufólkið er séríslenskt fyrirbæri í þeirri mynd sem við þekkjum það af þjóðsögum okkar.“

Önnur séríslensk þjóðtrú tengd áramótunum er sú að kýr tali mannamál á nýársnótt. „Þá vaknar ein og segir: Mál er að mæla, og önnur segir: Maður er í húsi,“ útskýrir Ólína. „Ef menn voru staddir í útihúsi þegar kýrnar voru þarna að ræða hið komandi ár, gat það kostað fólk geðheilsuna. Það var eins gott að láta kýrnar í friði á nýársnótt.“ n

Það var eins gott að láta kýrnar í friði á nýársnótt.