Droplaugarstaðir fagna fertugsafmæli í dag með sumarlegri garðveislu.

Hjúkrunarheimilið Droplaugarstaðir fagnar fjörutíu ára afmæli sínu í dag. Tímamótunum verður fagnað með pompi og prakt í góða veðrinu í dag með tilheyrandi tónlistaratriðum og frekara fjöri.

„Stemningin er alveg frábær, bæði hjá heimilismönnum og starfsfólki,“ segir Jórunn Frímannsdóttir forstöðumaður Droplaugarstaða. „Það er allt að gerast hjá okkur þar sem við erum búin að vera að gera allt tilbúið og finna út úr því hvernig við ætlum að koma öllum niður í garð því við erum bara með tvær lyftur.“

Droplaugarstaðir voru opnaðir 30. júní 1982 sem hjúkrunar- og vistheimili, en hafa frá árinu 1996 verið reknir einungis sem hjúkrunarheimili. Árið 2005 var síðan fjórðu hæð bætt við húsið og vistarverur íbúa urðu allar að einbýlum. Í dag eiga 83 einstaklingar heimili á Droplaugarstöðum sem hafa einnig aðstöðu fyrir þrjú sérstök hjúkrunarrými.

„Við erum með litla sérhæfða hjúkrunardeild sem er aðallega hugsuð fyrir MND-sjúklinga sem geta þurft á mikilli aðstoð að halda,“ segir Jórunn.

Lífið í þorpinu

Í mars 2020 fengu Droplaugarstaðir ISO-gæðavottun fyrst íslenskra hjúkrunarheimila. Jórunn segir mikið lagt upp úr því að viðhalda fullkomnum gæðakerfum.

„Við leggjum metnað okkar í dag í að ná endurvottun sem verður nú í haust,“ segir hún. „Covid var auðvitað mjög sérstakt tímabil, en á sama tíma nýttist gæðakerfið okkur rosalega vel.“

Þjónusta heimilisins er fjölbreytt og er þar meðal annars starfandi iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun, hárgreiðslustofa og snyrtistofa. Þá er Jórunn einnig sérstaklega stolt af garðinum.

„Við erum með þennan æðislega garð sem er vel skermaður af, með gróðurhúsi, sumarblómum og plöntum,“ segir hún. „Við erum með einhvern stærsta vínberjavið landins, held ég hreinlega.“

Jórunn segir heimilið í raun minna á lítið þorp.

„Ég hef verið í ýmsum störfum, þetta er alveg frábært starf, skemmtilegur vinnustaður sem er eins og lítið þorp eða samfélag,“ segir hún og bætir við að fram undan sé að halda áfram að þróast. „Okkur langar að taka upp stefnu fyrir heimilið og viljum virkja starfsfólk og íbúa með í það. Það er vinna sem við ætlum að fara í í haust. Við stækkum auðvitað ekki mikið enda er þetta lítill reitur, en það væri þörf fyrir stækkun sérhæfðu hjúkrunardeildarinnar og það þarf að skoða það í framtíðinni.“

Dagskráin í dag hefst klukkan 14 og er öllum velkomið að koma og fagna með.

Á Droplaugarstöðum búa í dag 83 einstak­lingar.Fréttablaðið/Valli