Tímamót

Drifinn áfram á kraftinum

Kvennakór Reykjavíkur lýkur 25. starfsári sínu með aðventutónleikum í Langholtskirkju annað kvöld, 28. nóvember, þar sem landsþekkt tónlistarfólk leggur kórnum lið.

Kvennakór Reykjavíkur er alltaf að finna upp á einhverju nýju, að sögn formannsins. Myndir/Gunnar Jónatansson

Þeir sem fylgdust með þáttaröðinni Kórar Íslands muna eflaust eftir Kvennakór Reykjavíkur sem komst í undanúrslit og gladdi fólk ekki einungis með líflegum söng sínum heldur líka listrænum danshreyfingum. Nú efnir sá kór til aðventutónleika í Langholtskirkju annað kvöld klukkan 20 og tjaldar miklu til eins og Svanhildur Sverrisdóttir, formaður kórsins, kann frá að segja.

„Við syngjum auðvitað fullt af yndislegri jóla- og aðventutónlist og tveir ungir ballettdansarar úr Listaháskólanum ætla að dansa við blómavalsinn úr Hnotubrjótnum eftir Tsjajkovskí. Með okkur verða líka þjóðþekktir listamenn og ber þar fyrst að nefna Þóru Einarsdóttur sópransöngkonu. Auk hennar verða valinkunnir hljóðfæraleikarar, Hávarður Tryggvason á kontrabassa, Zbigniew Dubik á fiðlu, Örnólfur Kristjánsson á selló og Einar Scheving á slagverk. Hljómsveitarstjóri er Vilberg Viggósson sem jafnframt spilar á píanó. Svo er það kórstjórinn okkar, hún Ágota Joó sem er frá Ungverjalandi og er ekki bara tónlistarmaður heldur líka dansari og miðlar þeirri þekkingu til kórsins þegar það á við.“

Tónleikar verða ekki til nema með samstilltu átaki, bendir Svanhildur á

Svanhildur segir aðventutónleikana lokahnykk á afmælisári kórsins. „Við byrjuðum með nýárstónleikum í Norður­ljósasal Hörpu með Vínarvölsum, glitri og glimmeri og héldum svo afmælishátíð um mitt ár. Kórinn er kvennaher, drifinn áfram á kraftinum og lætur hlutina gerast, hvort sem það er að sauma kjóla á allan hópinn eða hugsa út í öll smáatriði. Tónleikar verða ekki til nema með samstilltu átaki,“ tekur hún fram. Í Kvennakór Reykjavíkur eru um 50 konur. Á opinni æfingu í haust komu nýir kraftar inn, að sögn Svanhildar. „Svo eru sumar stofnfélagar og það eru mikil verðmæti sem felast í slíkri reynslu. Það er alltaf einhver endurnýjun en líka góður, sterkur grunnur sem kórinn byggir á.“

Næsta sumar er fyrirhuguð ferð til Ungverjalands, á heimaslóðir kórstjórans. „Þar ætlum við að fara í smiðju til eins af færustu kórstjórum Ungverjalands,“ segir Svanhildur. „Við erum alltaf að finna upp á einhverju nýju.“

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Tímamót

Fyrsta konan útskrifast frá Háskóla Íslands

Tímamót

Hef vonandi náð að gleðja einhverja í gegnum lífið

Tímamót

List í ljósi er okkar barn

Auglýsing

Nýjast

Árás á Downingstræti

Abdúlla verið konungur Jórdaníu í tuttugu ár

Apollo 14 lendir á Tunglinu

Stefán Jóhann Stefánsson verður forsætisráðherra

Þegar Challenger-skutlan fórst yfir Flórídaskaga

Burns kvöld á BrewDog

Auglýsing