Í stuttu máli þá er þetta leikrit um leikara sem er ekki sáttur við eigin feril, en telur að ef Samúel Beckett skrifi fyrir hann nýtt leikrit sé honum borgið. Hann hefur mælt sér mót við skáldið en það lætur á sér standa og meðan hann bíður mátar hann sig við ýmsar persónur úr leikritum Becketts. Hann bregður líka fyrir sig ögn af textum Dantes, eftirlætishöfundar Becketts, og Hallgrímur Pétursson og Antonin Artaud koma einnig við sögu.“

Þannig lýsir Trausti Ólafsson, leikhúsfræðingur og kennari, efni verksins Beðið eftir Beckett, sem flutt verður í Tjarnarbíói næsta þriðjudag og miðvikudag, eftir þrjár vel lukkaðar sýningar vestur í Dýrafirði. Trausti er höfundur þess og leikstjóri en leikarinn sem túlkar leikarann er hinn vestfirski Kómedíuleikhússmaður Elfar Logi Hannesson, sem hefur mikla reynslu af einleikjum. Hann er reyndar ekki einn á sviðinu allan tímann nú, því eins og í sönnum, grískum harmleik kemur sendiboði guðanna fram. Trausti segir nýjan sendiboða á hverjum sýningarstað og í hans hlutverki nú verður Tobías Dagur Úlfsson.

Aðspurður segir Trausti þetta ritverk aldrei hafa í skúffu komið. Það sé alveg nýbakað. „Við Elfar Logi höfum lengi vitað hvor af öðrum og stöku sinnum hist. Ég er nefnilega sjálfur að reka lítið leikhús í Garðabænum sem heitir Senuþjófurinn. Við sýndum þar vorið 2019 þrjú leikrit eftir Beckett í nýrri þýðingu minni og leikstjórn. Fljótlega upp úr síðustu áramótum hafði Elfar Logi samband og stakk upp á að Senuþjófurinn og Kómedíuleikhúsið færu í samstarf. Ég var sama sinnis. „Mig langar svo að gera Beckett-sýningu,“ sagði hann. Ég stakk upp á þessu og hinu en ekkert af því gekk alveg upp svo hans hugmynd var að taka búta úr leikritum Becketts hér og þar. Ég var til í að prófa það, er svo búinn að fara þrisvar vestur og sýningin var í þróun fram á síðasta dag. Marsibil Kristjánsdóttir, konan hans Elfars Loga, hannaði búninga og leikmynd, Hjörleifur Valsson fiðluleikari sér um tónlistina og Sigurvald Ívar Helgason hannaði lýsingu.“

Beðið eftir Beckett tekur tæpan klukkutíma í sýningu. Trausti segir um dökka kómedíu að ræða. „Þó leikrit Becketts séu fremur myrk á yfirborðinu þá er leiftrandi húmor í þeim líka, svo það getur verið snúið að skilgreina þau, en merkingin sem verður til í hugum áhorfenda er sú eina sem skiptir máli.“

fdgs