Á Amtsbókasafninu á Akureyri er áhugavert listaverk sem krefst þátttöku gesta í opinberu rými. Þar koma fram vonir, ótti, gleði og hugur þátttakendanna. Listaverkið, sem er lifandi og ber yfirskriftina „Áður en ég dey veggur“, er 2,5 metrar á hæð og 4,8 metrar á lengd. Veggurinn hefur 120 línur þar sem gestir rita þau atriði sem þeim eru efst í huga eða þeir forgangsraða hverju sinni.

Berglind Mari Valdemarsdóttir, verkefnisstjóri viðburða og sýninga á Amtsbókasafninu, segir viðtökurnar hafa verið gríðarlega góðar. Allir staldri við áberandi vegginn. Ritaðar athugasemdir hafa flestar verið jákvæðar. „Það hefur verið gaman að sjá virkni ólíkra aldurshópa. Þau yngstu hafa gjarnan notið aðstoðar eldri systkina. Vel fullorðið fólk hefur líka tekið þátt og allir aldurshópar þar á milli,“ segir hún.

Berglind Mari Valdemarsdóttir, verkefnastjóri á Amtsbókasafninu á Akureyri.

Berglind segir áherslur eða væntingar ólíkar eftir aldurshópum. „Yngra fólk og börn skrifa oftast framtíðardrauma sína. Gæludýr á borð við hunda og ketti eru gjarnan á óskalistanum. Þeir fullorðnu vilja meira njóta þess sem er, njóta tímans og vilja vera í sátt við sjálfa sig og sína.“

Einn fimm þúsund veggja

Veggurinn er hluti af alþjóðlega listaverkinu „Before I Die“ sem listakonan Candy Chang er höfundur að og hóf með því að setja verkið upp á yfirgefið hús í New Orleans í Bandaríkjunum árið 2011. Síðan þá hafa að minnsta kosti 5.000 hliðstæðir veggir verið settir upp í fjölmörgum borgum og bæjum í meira en 75 ríkjum allt frá Kína, Írak, Nígeríu, og Kasakstan.

„Áður en ég dey veggurinn“ er opinn til þátttöku til 15. ágúst.

Berglind segir systur sína, Bryndísi Elfu Valdemarsdóttur, verkefnastjóra hjá Akureyrarbæ, hafa verið í sambandi við Candy Chang. Þær systur hafi síðan í sameiningu fundið verkefninu farveg á Amtsbókasafninu. Listaverkið hefur verið opið til þátttöku á safninu frá því í júní en áætlað er að því ljúki 15. ágúst næstkomandi.

Notið á marga vegu

Berglind segir að hægt sé að njóta listaverksins á ýmsan hátt. „Það er hægt að skrifa á vegginn, lesa það sem aðrir hafa skrifað, mynda vegginn og mannlífið sem myndast í kringum hann eða taka þátt í samræðum sem myndast í tengslum við það sem skrifað er á vegginn. Þar sem veggurinn er í opinberu rými geta allir sem leið eiga um tekið þátt í sköpun hans, hvort sem er með því að deila draumum sínum með öðrum eða skrá hugsanir sínar án þess að vitni séu að því,“ segir hún.

„Listaverkið vekur fólk til umhugsunar um tilveruna, um stöðu sína, um eigin getu og vilja til að vera þátttakandi í lífinu.“ Þetta er fallegur vettvangur sem gefur fólki færi á að horfa yfir farinn veg, líta til framtíðar og deila framtíðardraumum, óskum og löngunum í opinberu rými. Veggurinn er áminning um að við erum ekki ein, hvatning um mikilvægi þess að eiga sér draum og gera það besta úr lífinu, óháð stétt og stöðu. Það er almenningur sem skapar listaverkið sem til verður.