Davíð Scheving Thor­steins­son, fyrr­verandi fram­kvæmda­stjóri, er látinn, 92 ára að aldri. Greint er frá and­láti hans í Morgun­blaðinu í dag. Davíð kom víða við í ís­lensku at­vinnu­lífi eftir að hann lauk stúdents­prófi frá MR árið 1949.

Hann var fram­­kvæmda­­stjóri hjá Smjör­líki hf. og Sól hf. á ár­un­um 1964 til 1995 og gegndi auk þess fjölda á­byrgðar­starfa í ís­lensku at­vinnu­lífi og fyrir hið opin­bera. Hann sat meðal annars í fram­kvæmda­stjórn Sam­taka at­vinnu­lífsins og vara­for­maður þess á árunum 1978 til 1990. Hann var for­maður banka­ráðs Iðnaðar­bank­ans 1982-1989, vara­maður í banka­ráði Lands­banka Ís­lands 1972-1980, vara­maður í banka­ráði Seðla­banka Ís­lands 1980-1993 og aðal­maður í stjórn bank­ans á árunum 1993-1998.

Davíð átti sinn þátt í því að bjórinn var leyfður á Ís­landi en árið 1980 reyndi hann að fara með bjór inn í landið, eins og hann rifjaði upp í skemmti­legu við­tali við Frétta­blaðið árið 2019, í til­efni þess að þá voru 30 ár liðin frá því að bjórinn var leyfður á ís­landi.

„Dóttir mín var flug­freyja og hún mátti koma með bjór inn í landið fyrir mig, en ekki ég. Ég gat ekki séð að þetta sam­rýmdist stjórnar­skrá Ís­lands að ein­hverjir kjara­samningar gætu leyft sjó­mönnum og flug­liðum að flytja inn vöru, en ekki al­menningi. Það fauk bara í mig,“ sagði Davíð í við­talinu og á­kvað hann því að kaupa kippu af bjór í frí­höfninni.

„Ég setti bjórinn ofan á töskuna mína og fór inn í tollinn. Þeir sögðu að það mætti ekki fara í gegn með bjór. Ég átti að skrifa undir sátt og greiða sekt. Ég sagði nei því ég var ekkert sáttur.“

Þetta varð til þess að Sig­hvatur Björg­vins­son, þá­verandi ráð­herra skrifaði undir reglu­gerð sem leyfði al­menningi að fara með bjór inn í landið. „Það er hann sem á heiðurinn af því en ekki ég,“ sagði Davíð hóg­vær í við­talinu.

Davíð var sæmdur fálka­orðunni árið 1982. Hann lætur eftir sig eigin­konu og sex börn. Út­för hans fer fram frá Dóm­kirkjunni í Reykja­vík þann 25. apríl næst­komandi.