Rokktónlist mun hljóma um Árbæjarsafnið á sunnudaginn. Gamlir bílar verða á svæðinu og gestir eru hvattir til að klæða sig upp í stíl við þema dagsins, rokk og ról. Starfsfólkið mun þar ganga á undan með góðu fordæmi.

Það verða félagar í Fornbílaklúbbi Íslands sem kíkja í heimsókn með drossíurnar sínar, spjalla við gesti og miðla góðum ráðum um meðferð fornbíla, ef eftir því er leitað.

Í Hábæ vinnur húsfreyjan Katrín Rósa fyrir sér með því að greiða nágrannakonunum. Hún veit allt um galdurinn á bak við flotta pin-up-hárgreiðslu. Í Lækjargötu stendur svo Heiða förðunarfræðingur og málar dömurnar áður en þær skella sér á ball í sínu fínasta pússi!

Ilmurinn af nýbökuðum lummum leikur um svæðið en í kringum gamla Árbæinn og á baðstofuloftinu verður unnið að tóskap að venju. Opið verður á kaffihúsi safnsins í Dillonshúsi þar sem heimilislegar veitingar eru til sölu.

Dagskráin hefst klukkan eitt og stendur til klukkan fjögur síðdegis.