Danshátíðin Reykjavík Dance Festival hefst í dag og fyrstu tvö verkin verða sýnd. Fyrsta atriðið er dansleikur í Iðnó þar sem dansinum verður fagnað í fjölbreytileika sínum,“ segir Viktoría Blöndal, verkefnastjóri hátíðarinnar. „Það kemur listatvíeyki frá Þýskalandi sem ætlar að leiða þennan dansleik. Það er að safna danshreyfingum Íslendinga. Þangað er öllum aldurshópum boðið, börnum og upp úr. Hátíðin er margradda og hefur það að markmiði að rúma sem flest.“

Viktoría segir aðaldagskrána fara fram í Iðnó og Tjarnarbíói og auk þess verði eitt verk í þremur unglingsherbergjum á jafnmörgum stöðum í Vesturbænum. „Það eru fjórar stúlkur sem halda þá sýningu sjálfar og eru ekki með hefðbundinn dans, heldur verða þar fluttir hinir ýmsu listviðburðir. Þetta er nýjung og þær eru fleiri því það er mjög fjölbreyttur hópur sem tekur þátt hjá okkur í ár. Til dæmis ætla unglingar með fatlanir að sýna gestum uppáhaldsstaðina sína í Reykjavík. Það verk heitir Fegurð í mannlegri sambúð og er bara labbitúr um borgina.“

Fleira nefnir Viktoría sem heyrir til tíðinda á danshátíðinni. Svo sem eins og að danshöfundar í hjólastól ætli að sýna verk og pönkband sem skipað er fólki eldra en 65 ára spili á hátíðinni og í þeim hópi sé Tommi á Hamborgarabúllunni. „Bandið heitir Áfram með smjörlíkið,“ upplýsir hún. „Svo má telja dagbókalestur hjá Möggu Bjarna, Halldóru Geirharðs og Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur og að tattúlistamenn gera tattú á gesti og gangandi. Rósa Ómarsdóttir, Steinunn Ketilsdóttir og Dance For Me frumsýna ný verk og allir þessir listamenn eru að ögra aðferðum sviðslistaformsins.“