„Aldrei hefði ég búist við að hjúkrunarfræðingar og aðrir starfsmenn, ásamt þeim konum sem gátu staðið í fæturna, myndu detta í stórkostlegan dans og söng í þakklætisskyni fyrir að fá nokkur rúm,“ segir Regína Bjarnadóttir eftir að hafa afhent helsta fæðingarsjúkrahúsi í Afríkuríkinu Síerra Leóne sjúkrarúm. Hún segir þau þykja afar fullkomin þar því hægt sé að hækka þau og lækka og setja upp grindur á hliðunum, sem komi sér vel þegar konur fái flog vegna fæðingarsýkingar.

„Rúmin eru líka með keðjum til að notandinn geti híft sig upp. Á spítölum í litlu þorpunum höfðu hjúkrunarfræðingarnir aldrei séð slíkt og fannst þetta stórkostleg uppfinning,“ lýsir Regína.

Í sendingunni voru 43 rúm sem dreifðust á fjóra spítala, flest fóru á fæðingardeildina í höfuðborginni Freetown. Þau voru gefin af Sjúkrahúsi Akureyrar sem endurnýjaði búnað sinn síðla árs 2019 og hafði áður sent 20 rúm til sama lands, á vegum Auroru velgerðasjóðs. Samskip sá um flutninginn endurgjaldslaust í bæði skiptin. Síðari sendingin fór í skip snemma árs 2020 en svo braust Covid-19 út og Síerra Leóne var lokað svo rúmin voru í Rotterdam í marga mánuði.

Rúmin frá Akureyri vöktu lukku í Síerra Leóne, keðjan til að hífa sig upp þótti einstök uppfinning. mynd/aðsend

Líður betur í bol en dúnúlpu

Regína er framkvæmdastjóri Auroru velgerðasjóðs, hún er þróunarhagfræðingur og vann meðal annars áður fyrir Sameinuðu þjóðirnar í Gvæjana í Suður-Ameríku. Nú býr hún og starfar hluta vetrarins í Síerra Leóne.

„Ég hef verið hér með annan fótinn í bráðum sex ár og fjölskylda mín líka, okkur líður dásamlega. Höfum vissulega lent í ýmsu, eins og malaríu og þó nokkrar tumbuflugu-lirfur hef ég þurft að plokka úr fjölskyldumeðlimum. En lyfjaskúffan okkar er stór og við erum hress og kát að öllu jöfnu. Landið liggur nálægt miðbaug þannig að hitinn fer aldrei niður fyrir 25 gráður. Loftið er heitt og rakt sem ég kann vel við. Það á betur við mig að vera berfætt í pilsi og stuttermabol en í dúnúlpunni heima!“

Aurora velgerðasjóður hefur starfað í þrettán ár. Regína segir verkefnin upphaflega hafa verið tengd menntun.

„Við byggðum yfir 70 skóla og styrktum þjálfun kennara en undanfarið höfum við mest unnið með tónlistar- og handverksfólki, rekum spennandi leirkeraverkstæði og skóla sem tengist því. Bjóðum líka margs konar námskeið fyrir ungt fólk, meðal annars í samstarfi við Listaháskóla Íslands og styðjum unga frumkvöðla með fimm mánaða námskeiðum um hvað felst í að setja upp eigin fyrirtæki. Í verkefninu Sweet Salone sem hefur verið flaggskipið okkar síðustu misseri tengjum við saman hönnuði, einkum íslenska, og handverksfólk í Síerra Leóne og framleiðum fallegar vörur sem við flytjum úr landi og seljast mest gegnum netið.“

Fólk tortryggið gagnvart bóluefnum

Síerra Leóne er neðarlega á listum yfir stöðuna í efnahags-, heilbrigðis- og menntamálum og ungbarnadauði er einn sá mesti í heiminum, að sögn Regínu. Hún segir mörg ríki hafa dregið úr þróunaraðstoð undanfarin ár og nefnir þar Breta. En hvernig er Covid-19 ástandið?

„Ríkið var fljótt að loka landamærum og slapp við fyrstu bylgjuna, síðan þau voru opnuð aftur í ágúst hefur veiran kraumað undir án þess að ná sér beint á strik. Nokkurt magn af bóluefnum hefur borist í gegnum COVAX-samstarfið en illa gengur að koma því út, fólk hér er tortryggið, sumt heldur að hingað séu send efni sem Vesturlandabúar vilji ekki. Ég ætlaði fyrst að hafna bóluefni til að eyða því ekki frá innfæddum en ákvað svo að sýna samstarfsfólki mínu að það væri óhætt að fara í bólusetningu.“