Bíddu aðeins, ég ætla að fá mér kaffibolla meðan ég spjalla við þig,“ segir Finnur Sigurbjörnsson, skipstjóri á togaranum Múlabergi SI 22 og hellir upp á. Hann er í haustralli fyrir Hafrannsóknastofnun, staddur út af Faxaflóa – í kaldaskít – þegar hann svarar símanum.

Um borð eru tuttugu manns, þar af sjö frá Hafró, að rannsaka hvað fiskistofnarnir hafa af fæðu á grunnslóð og hvernig nýliðun reiðir af. „Það er skoðað í kviðinn á þessum kvikindum, þar er ekki alltaf mikið,“ lýsir Finnur. „En smávegis var af loðnu úti fyrir Norðvesturlandi, sums staðar voru þorskseiði og svo síld og rækja. Við fáum náttúrlega allar tegundir, það er svo smár möskvi sem við notum. Við toguðum fyrir utan Reykjavík og einn um borð taldi að þar myndi ekkert koma upp nema sprautunálar og bíldekk.“

Múlaberg er ístogari, gerður út af Ramma hf.

Dróguð þið ekki upp eldgamlan planka austur í Fáskrúðsfirði? „Jú, Albert Eiríksson matgæðingur var í sambandi við mig í gær og fullyrðir að stykkið sé úr annarri hvorri skútunni sem fórust þarna 8. maí 1910. Við erum með þennan forngrip um borð, hann verður sendur austur þegar við komum í land.“

Voru á leið í Staðarskála

Eins og sjá má á vefnum skip.hafro.is hefur Múlabergið meðal annars farið inn í þrönga firði eins og Hrútafjörð. Þegar ég hef orð á því hlær Finnur og segir. „Já, við vorum bara á leið í Staðarskála. Fórum líka inn í Mjóafjörð fyrir austan, skruppum þar inn að Eyri. Það er dálítið sérstakt að vera í svona fjöruferðum! Ég er búinn að fara í nokkur vorröll, þetta er enn skemmtilegra. Svo höfum við farið langt út á milli, vorum 107 mílur austur af Reykjanesinu í fyrradag, ekki veit ég hvort það á teljast grunnslóð.“

Vindur fór í 34 metra

Ferðin byrjað í heimabænum Siglufirði 10. október, þaðan var stímt vestur fyrir Horn og svo austur með ströndinni, að sögn Finns. „Það gekk rosa vel fyrstu vikuna, sól og blíða alla daga. Við höfum verið heppin með veður nema einn sólarhring í grennd við Vestmannaeyjar, þegar vindur fór í 34 metra.“

Nú sér Finnur fyrir endann á túrnum í vikulokin, ef veður leyfir. Síðasta stöð af 180 er inni í Jökulfjörðum. Þaðan verður siglt til Siglufjarðar aftur. En hvað þá tekur við? „Það er planið að fara aftur á djúprækju í nokkar vikur, svo er bara bolfiskur í troll eftir það fram að páskum,“ svarar hann. „Nema við förum á vorrall í febrúarlok.“