„Það er byrjað að hringja í okkur hjónin á Bergistanga og panta gistingu og við Margrét erum að gera allt klárt. Svo verður kaffi­húsið hér á bryggjunni opnað um næstu mánaða­mót. Það er vin­sælt. Hún kom ný­lega hún Sara sem hefur starfað þar frá því það var sett á lag­girnar, til að líta yfir og huga að undir­búningi. Það verður að gera ráð fyrir að ein­hverjir komi,“ segir Gunn­steinn Gísla­son í Norður­firði spurður hvort hann haldi að ferða­menn láti sjá sig þar í sumar. Hann vonar auð­vitað að þeir verði veiru­lausir. „Við höfum sloppið við veiruna, þessi fáu sem erum hér og erum á­nægð með það,“ segir hann.

Spurður hvernig veturinn hafi verið svarar Gunn­steinn: „Þegar maður hugsar til baka þá var hann djöfull harður, ef það má segja svo ljótt. Kaldur og vinda­samur. Dag eftir dag var bara ekki fært út úr húsi. Bændur brutust til að gefa kindum sínum en annars voru menn ekki á ferð. Það var þó ekki snjó­þungt hjá okkur en hér sunnan við var mikill snjór, í Reykjar­firðinum og víðar.“

Nú hefur Vega­gerðin kynnt nýtt vegar­stæði yfir Veiði­leysu­háls sem liggur tals­vert lægra en sá vegur sem fyrir er. Gunn­steinn er hlynntur því og segir lág­lendi­sveg fyrir Kamb varla koma til greina. „Það er svo miklu lengri leið og við höfum ekki haft hug á að leysa okkar sam­göngu­mál með vegi þar,“ lýsir hann.

Strand­veiði­bátarnir eru komnir í Norður­fjörð, fyrstu dagana eftir að veiðar voru leyfðar gaf ekki á sjó, að sögn Gunn­steins, en nú gengur betur. „Svo er sauð­burður kominn í fullan gang hjá bændum. Það eru fjár­bú í Stein­s­túni, á Melum, í Ár­nesi og í Litlu-Ávík. En við Margrét eigum enga kind. Það hefði ein­hvern tíma þótt ó­burðugt.“

Ár­nes­hrepps­búar voru svo myndar­legir að koma sér upp fé­lags­verslun í Norður­firði þar sem kaup­fé­lagið var. „Verslunin er nauð­syn­leg,“ segir Gunn­steinn. „Þar starfar franskur piltur. Hann talaði litla ís­lensku fyrst en við erum farnir að skilja hvor annan og hann talar ensku.“