Þann 25. janúar ár hvert gera Skotar um allan heim sér glaðan dag og blása til „Burns-kvölds“, þar sem lífi og arfleifð þjóðskálds þeirra, Roberts Burns, er fagnað á fæðingardegi hans með skoskum mat, drykk, tónlist og auðvitað ljóðlist skáldsins.

Í ár eru 260 ár frá fæðingu skáldsins og ætlar BrewDog hér á landi að fagna þessum tímamótum með sinni útfærslu af Burns-kvöldi þar sem skosk arfleifð verður í hávegum höfð. Skosk tónlist mun hljóma allan daginn, skoskur handverksbjór verður í fyrirrúmi og skoskir réttir að hætti hússins verða fáanlegir þetta eina kvöld. Gestir sem mæta í skotapilsi fá jafnframt sérstakan glaðning á staðnum, segir í tilkynningu frá BrewDog.

Skoska handverksbrugghúsið BrewDog var stofnað árið 2007 af tveimur ástríðufullum heimabruggurum, James Watt og Martin Dickie, sem voru orðnir leiðir á einhæfri bjórmenningu landa sinna og vildu bjóða upp á fjölbreyttan gæðabjór. Í dag starfa yfir 1.100 manns hjá BrewDog, sem er með höfuðstöðvar sínar og helstu framleiðslu í Ellon í Skotlandi. BrewDog-barir eru um 70 talsins víðsvegar um heim, þar af 40 barir á Bretlandseyjum.

BrewDog Reykjavík opnaði bar sinn og veitingastað síðastliðið haust á horni Frakkastígs og Hverfisgötu. Þar er m.a. boðið upp á 20 handverksbjóra af dælum og sérstök áhersla hefur frá upphafi verið lögð á íslensku handverksbrugghúsin í bland við fjölbreytta BrewDog-bjóra. Í starfsliðinu eru m.a. nokkrir Skotar sem munu að sjálfsögðu mæta í sínum þjóðlegasta búningi á Burns-kvöldið.

benediktboas@frettabladid.is