Tímamót

Búðin opnuð í Bakkagerði

Íbúar á Borgarfirði eystra og velunnarar staðarins tóku höndum saman, söfnuðu hlutafé og standsettu matvörubúð í þorpinu sínu, Bakkagerði. Búðin var opnuð 2. júlí.

Christer sat við að gera vörulista fyrir Búðina og rétt gaf sér tíma í útimyndatöku í kvöldsólinni. FréttablaðiðErnir

Það er mikil ánægja með Búðina,“ segir Christer Magnússon, framkvæmdastjóri nýopnaðrar verslunar á Borgarfirði eystra. Christer á heima í Reykjavík en kveðst vera mikið fyrir austan. „Konan mín ólst þar upp og á skyldmenni þar, útskýrir hann.“ Hann segir þau hjón þó alls ekki ein um að koma upp hinni nýju verslun. „Það er stór hópur sem hefur tekið sig saman, hluthafar í félaginu eru orðnir yfir 70. Við hjónin keyptum hús sem heitir Gamla pósthúsið, þar var Póstur og sími framan af og síðar verslun, þar til í september í fyrra. Frekar lítið húsnæði en nægir búð af þessari stærðargráðu.

Hugsunin er sú að fólk geti náð sér í mjólk og aðrar nauðsynjar án þess að keyra 100 kílómetra. Svo viljum við líka þjónusta ferðamenn. Þeir eru ósáttir við að geta ekki keypt sér eitthvað í svanginn, þó ekki sé annað en gos og súkkulaði.“

Það sem er sérstakt við þessa framkvæmd er að fjölmargir hafa lagt hönd á plóg og skilað mikilli sjálfboðavinnu, að sögn Christers. Hann nefnir smiði, pípulagningamenn, rafvirkja, málara. „Við tókum húsnæðið alveg í gegn og fólk lagði til alls konar vinnu. Ein fullorðin kona kom, mældi fyrir tjaldi fyrir eldhússkáp og saumaði og önnur listræn málaði klósetthurðina þannig að fólk heldur að það sé að ganga inn á kamar!“

Christer segir forsögu búðarmálsins þá að Borgarfjörður eystri teljist til brothættra byggða og á íbúaþingi í febrúar hafi verið talið forgangsmál að setja upp búð fyrir sumarið. „Þess vegna var farið í þetta verkefni,“ segir hann.

En er ekki allt dýrt í Búðinni?

„Jú, frekar. Þetta er lítil verslun og við fáum engin sérstök kjör hjá birgjum, svo þurfum við að taka flutningskostnað inn í verðið.“

Ferðamannastraumur er mikill á Borgarfirði, að sögn Christers. „Um 400 bílar á dag fara um Vatnsskarðið milli Héraðs og Borgarfjarðar, margir sem koma með ferjunni til Seyðisfjarðar fá sér bíltúr hingað.“

Christer er sænskur að uppruna en hefur búið á Íslandi frá árinu 1991. Hann er hjúkrunarfræðingur að mennt en kveðst ekki hafa unnið við fagið í mörg ár. „Síðast var ég ritstjóri tímarits hjúkrunarfræðinga en hætti því 2015. Núna er ég með bók í smíðum en svo fór ég í þetta verkefni fyrir austan svo það verður einhver dráttur á útgáfu. Ég stofnaði einkahlutafélag kringum skriftirnar og nú hefur sú ákvörðun undið upp á sig því ég er orðinn framkvæmdastjóri Búðarinnar.“

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Tímamót

Fyrsta konan útskrifast frá Háskóla Íslands

Tímamót

Hef vonandi náð að gleðja einhverja í gegnum lífið

Tímamót

List í ljósi er okkar barn

Auglýsing

Nýjast

Árás á Downingstræti

Abdúlla verið konungur Jórdaníu í tuttugu ár

Apollo 14 lendir á Tunglinu

Stefán Jóhann Stefánsson verður forsætisráðherra

Þegar Challenger-skutlan fórst yfir Flórídaskaga

Burns kvöld á BrewDog

Auglýsing