Tólf iðin börn raða sér umhverfis stórt borð í Viðeyjarskóla sem upphaflega var byggður 1928. Þau eru að binda inn væntanlegar minninga- og sögubækur, með viðargrein í kili. Þetta er annað verkefni þeirra á vikulöngu námskeiði sem nefnist Viðey – Friðey. Þau byrjuðu á að búa til fjaðurpenna. Síðan munu þau gera myndverk með pennunum og svörtu indian-bleki, til að líma á bókarkápurnar.

Ása Helga Ragnarsdóttir, leiklistarkennari á námskeiðinu, hafði lýst efni þess stuttlega í símtali.

„Börnunum verður kennt að nema land. Þau stofna eigin eyju, með sínum fána og siðum, hvert og eitt, það verður tónlist og þau búa til eigin leikþætti.“

Ása Helga er ekki með þennan fyrsta dag en Guðrún Gísladóttir myndlistarkennari og Sara Riel myndlistarkona halda vel utan um hópinn.

Matarhlé og útivist í Viðeyjarskóla sem er með óskatré við dyrnar.

Það er sama við hvert barnið er talað, öll eru ánægð og bjartsýn á framhaldið. Hér eru dæmi:

„Báturinn ruggaðist á leiðinni, það var skemmtilegt,“ segir Ingibjörg.

„Þetta verður rosa gaman,“ segir Karitas.

„Kannski förum við í fjöru og tínum kuðunga,“ segir Alva.

„Við fundum eggjaskurn á leiðinni,“ segir Elías Birgir og sýnir.

„Við vitum ekki hvaða fugl verpti því eggi, kannski tjaldur,“ segir Þórdís.

Hrafnar Ísak er í bókbandinu en hefur ekki hugað að efni hennar enn. „Ég fylgi bara því sem krakkarnir eru að gera,“ útskýrir hann.

Guðrún kennari segir námskeiðið, sem er á vegum borgar og safna, fara vel af stað.

„Þetta er frábær hópur, allir til í allt. Á eftir förum við í fjöru og finnum eitthvað, tökum svo gifsafsteypur og búum til skúlptúra,“ lýsir hún.

Sara Riel tekur fram að saga Viðeyjar að fornu og nýju verði kynnt börnunum á námskeiðinu. Í stíl við hefðir Yoko Ono muni þau hengja óskir sínar á tré við skóladyrnar, vonandi endi þær undir friðarsúlunni.