Litir jurtaríkisins eru helsta viðfangsefni Viktors Péturs Hannessonar myndlistarmanns. Hann opnar í dag sýninguna Borgarfjarðarblómi í Hallsteinssal, í Safnahúsinu í Borgarnesi.

„Ég er loks búinn að ramma inn. Þetta eru 50 verk af öllum stærðum og gerðum. Það minnsta er 20x30 en það stærsta 2,5 metrar á lengd, það er aðallega byggt á rabarbarastilkum og einu bláberi,“ segir Viktor Pétur Hannesson myndlistarmaður, rétt áður en hann byrjar að stilla upp verkum sínum í Safnahúsinu í Borgarnesi. Sýningin Borgarfjarðarblómi er opnuð þar í dag.

Viktor segist oft hafa haft viðkomu í Borgarfirði á undanförnum árum á ferðavinnustofu sinni, Afleggjaranum, – sem er húsbíll.

Í öllu sem ég geri í myndlistarmálum er keppikefli að sækja efnivið í umhverfið og ég byrjaði að fikta með plöntur 2017.“

Áður hafi hann fengist við matargerð úr íslenskum jurtum með félaga sínum. Við undirbúning að hátíð til heiðurs njóla hafi hann viljað gleðja félagann með mynd af þurrkuðum njólablöðum á kartoni en tímaskortur orðið til þess að hann tók hitapressu í þjónustu sína.

„Þegar ég opnaði pressuna eftir hálftíma var blaðið soðið í sundur en undir var eiturgult prent, miklu fallegra en myndin mín hefði getað orðið. Ég hef verið í grafíktilraunum síðan og litapallettan farið sístækkandi.“

Viktor Pétur útskrifaðist af myndlistarbraut Listaháskólans árið 2012 og lýkur námi við listfræðideild HÍ í haust. Hann segir námið gefa honum sjálfsöryggi til að fara eigin leiðir í listsköpuninni og þessi aðferð henti honum vel.

„Á þennan hátt kynnist ég flórunni og eignast gott samband við jurtirnar. Efniviður minn getur verið allt frá bronsgulum njólarótum að vori til dimmblárra krækiberja á hausti. Hvatinn er liturinn og magnið, ég tek ekki jurtir sem vaxa bara á stangli. Hef líka bara vissan tímaglugga til að sækja liti í ákveðnar plöntur. Ekki get ég farið út í búð að kaupa þá heldur verð að bíða í tæpt ár.“

Sýningin verður opin milli 13 og 18 virka daga og 13 til 17 um helgar. ■