Það er engin trjátegund sem við Íslendingar tengjum jafn vel við og birkið,“ segir Elías Arnar, ljósmyndari og landfræðinemi, sem verður með sýninguna Árstíðir birkisins í Flæði á Vesturgötu 17 fram yfir næstu helgi frá klukkan 17 til 22 alla daga. Hann kveðst líka verða þar í eigin persónu mestallan tímann. „Ég mun gjarnan spjalla við gesti ef þeir vilja, svo verð ég með fróðleik á blaði og líka opna vefsíðu,“ lýsir hann.

Eins og heiti sýningarinnar ber með sér snýst hún um breytingar birkis eftir árstíðum sem birtast meðal annars í litbrigðum, laufi og fræi. „Hugmyndina má rekja til gönguferðar um Laugaveginn með vinum mínum,“ segir Elías Arnar. „Ég hafði verið að taka myndir af fjöllum og öðrum fjarlægum fyrirbærum í landslaginu mestalla leiðina en þegar ég kom í Þórsmörkina kölluðu allt í einu smáatriðin í náttúrunni á mig. Þau birta það sem manni yfirsést svo oft og á þessari sýningu getur fólk nálgast náttúruna með aðstoð landfræðiljósmyndunar.“

Ég bið Elías Arnar að útskýra orðið landfræðiljósmyndun. „Margir taka listrænar myndir í náttúrunni og hafa flottan stíl. Í landfræðiljósmyndun er náttúran skoðuð í samhengi við eitthvað annað, eins og fræðigreinin landfræði reynir að gera. Hugsum okkur foss. Ég þykist vita hvernig hann hefur orðið til og þegar ég mynda hann reyni ég að bregða ljósi á þá ferla sem hafa átt sér stað. Á svona sýningu get ég sagt fólki hvað er að gerast á myndunum, þá fer það að líta öðruvísi á þær,“ útskýrir hann.

Elías Arnar hefur starfað sem landvörður hjá Vatnajökulsþjóðgarði á Kirkjubæjarklaustri, í Lakagígum og Hrauneyjum og síðustu tvö sumur í Mývatnssveit. „Þegar ég er með fræðslugöngur – segjum í Dimmuborgum – þá hugsar fólk í upphafi, þetta eru bara einhverjir klettar en að göngu lokinni eru þetta ekki lengur bara „einhverjir klettar“, því þá veit fólk hvernig þeir urðu til og þeir fá allt aðra merkingu. Þetta reyni ég að túlka líka í myndum mínum. Birkið á sér mikla sögu á Íslandi, það hélt lífi í þjóðinni um aldir. Svo hefur verið tekist á um nýtingu birkiskóga í landinu okkar, eins og Þórsmörkin er dæmi um.“

Ein myndanna á sýningunni.