Þorvaldur fæddist í Flatey á Breiðafirði 6. júní 1855, sonur Jóns Thoroddsen sýslumanns og skálds og Kristínar Ólínu Þorvaldsdóttur Sívertsen. Hann nam við Lærða skólann þar sem hann sýndi erlendum ritum um náttúruna og jörðina meiri áhuga en skólabókunum.

Tvítugur sigldi Þorvaldur til Kaupmannahafnar þar sem hann sneri sér fljótt að jarðfræðinni sem hann vann að alla ævi. Á háskólaárunum fór hann í fjölda rannsóknarleiðangra, meðal annars til að skoða ummerki sprengigossins í Öskju sem vakti athygli hans á því hve lítil þekking var á náttúrufari Íslands, einkum hálendinu.

Í Lærða skólanum hafði Þorvaldur meiri áhuga á náttúruritum en námsefninu.

Þorvaldur er einn afkastamesti rithöfundur þjóðarinnar og skildi eftir sig fjölda rita um íslenska náttúru og er einna þekktastur fyrir Lýsingu Íslands. Hann kvæntist árið 1887 og eignaðist tvær dætur sem létust báðar úr veikindum. Þorvaldur fékk slag á fundi Vísindafélagsins í Kaupmannahöfn 3. desember 1920 og lést 28. september 1921, 66 ára að aldri.

„Hann er fyrsti náttúrufræðingur landsins til að rannsaka það í heild sinni,“ segir Snæbjörn Guðmundsson jarðfræðingur hjá Náttúruminjasafni Íslands sem hefur framsögu í kvöld. „Áður fyrr höfðu menn komið til landsins og skoðað hitt og þetta, en hann var með hugann við heildarmyndina og fór sumar eftir sumar í stóra rannsóknarleiðangra. Afköst hans í rannsóknum og skrifum voru með ólíkindum og hann gerði margar merkar uppgötvanir tengdar náttúrufari landsins.“

Á sýningunni sem opnuð verður í kvöld er fjöldi mynda úr safni Þorvalds.

Snæbjörn útskýrir að vanþekking Íslendinga í náttúrufræði á þeim tíma hafi þó ekki verið svo furðuleg.

„Við vitum öll hvað íslenska hálendið er erfitt yfirferðar og hrjóstrugt. Það hefur ekki verið árennilegt að takast á við þetta verkefni,“ segir hann. „Í huga Þorvalds var meginmarkmiðið því ekki endilega að gera einhverjar tímamótauppgötvanir, heldur fyrst og fremst að leggja grunn að náttúrufarsrannsóknum sem voru einfaldlega ekki til á þeim tíma.“

Í lok málþingsins verður svo opnuð sýning í anddyri Þjóðarbókhlöðunnar á munum úr safni Þorvalds sem hann eftirlét Þjóðminjasafninu að sér látnum. Þar verða bréf og viðurkenningarskjöl, en líka munir og myndir úr rannsóknarleiðöngrum Þorvaldar.

Málþingið stendur yfir milli klukkan 19.30 og 22.00 í kvöld.