Við fengum brasilíska slagverksleikarann Rodrigo Lopes og samlanda hans, Guito til að leiðbeina nemendum okkar. Þeir tveir taka að sér þetta námskeið og eru að leiða okkur í brasilíska sveiflu. Vonandi liðka þeir okkur til í vetrarfrostinu og gefa okkur smjörþef af sumri og sól,“ segir Guðlaugur Viktorsson, skólastjóri Tónlistarskóla Eyjafjarðar.

Spurður hvort krökkunum þyki ekki gaman svarar hann: „Jú, jú, fyrst spurðu þau: „Til hvers erum við að þessu“ en svo detta þeir inn í þennan rythma og þetta er svo skemmtileg tilbreyting frá hversdeginum. Dagur tónlistarskólanna er næsti laugardagur, við verðum frekar róleg þann dag, hins vegar erum við með þemaviku í þessum þremur sveitarfélögum sem skólinn starfar í, Hörgársveit, Eyjafjarðarsveit og Grýtubakkahreppi.“

Viktor segir Tónlistarskóla Eyjafjarðar stóran, af sveitaskóla að vera. „Við erum með nítján kennara og nálægðin við Akureyri gerir okkur kleift að vera með fjölbreytta kennslu. Það er allt í boði, samlegðaráhrifin eru svo sterk. Svo erum við með Laugaborg, gamla félagsheimilið hér við Hrafnagil í Eyjafjarðarsveit, hún var gerð að tónlistarhúsi og hentar okkur mjög vel. Eins notum við þau félagsheimili sem eru á hinum stöðunum.“

Margt fleira forvitnilegt er á dagskrá skólans þessa viku, að sögn Guðlaugs, bæði fyrir nemendur skólans, foreldra þeirra og aðra sveitunga. Til dæmis verður kvikmyndin Frú Elísabet sýnd í öllum sveitarfélögum. Hún fjallar um frú Maríu Elísabetu Jónsdóttur (1869-1945), organista, tónskáld og kórstjóra, sem fyrst íslenskra kvenna fékk birt eftir sig lag á prenti. Í tengslum við sýninguna verða söngstundir.