„Þetta kemur náttúrulega eins og þruma úr heiðskíru lofti,“ svarar Dagur B. Eggertsson aðspurður um hvernig fimmtugsafmælið á sunnudaginn sæki að honum. „Nei, þetta er auðvitað bara tilhlökkunarefni þótt þetta komi eftir ansi annasamt vor eins og kosningavor eru gjarnan. Það hefur ekki verið mikill tími til að undirbúa neitt en maður reynir að gera eitthvað skemmtilegt engu að síður.“

Þótt borgarstjórinn sé í dag spenntur fyrir afmælinu hafa tímamótin ekki alltaf verið jafnmikið tilhlökkunarefni.

„Ég var aldrei mikið afmælisbarn, en svo á ég góðan kunningja sem heyrði á tal mitt einhvern afmælisdaginn þar sem ég ætlaði að gera lítið sem ekkert úr þessu,“ segir Dagur. „Hann hafði lent í erfiðum veikindum og tók mig á teppið. Hann sagði að maður þyrfti að muna að gleðjast og fagna, ekki bara hverju ári, heldur nánast hverjum degi því það væri ekkert sjálfsagt í lífinu.“

Eftir þetta hefur Dagur reynt að gera sitt allra besta til að gera alltaf eitthvað til að fagna.

„Þetta var auðvitað alveg hárrétt hjá honum og nú reyni ég alltaf að gera eitthvað skemmtilegt á afmælisdaginn sem ég var orðinn ansi latur við að gera.“

Amma spækaði púnsið

Í ár er stefnan að halda hóf fyrir vini og kunningja á laugardagskvöldinu og skála á miðnætti. Dagur er ansi stoltur af afmælisdeginum sínum, 19. júní, sem er einnig kvenréttindadagurinn.

„Mamma er og var svo mikil kvenfrelsiskona að ég kom í heiminn tíu mínútur fyrir miðnætti,“ segir hann kíminn. „Það var mikið metnaðarmál fyrir henni að ég myndi fæðast 19. júní.“

Metnaður í fjölskyldunni þegar kemur að afmælum er ekki af skornum skammti og dregur Dagur fram minningu af ömmu sinni, Jónu.

„Hún var mikið á móti áfengi en fékk þá undarlegu hugmynd þegar ég var á menntaskólaárunum að íslenskar brennivínsflöskur, sem höfðu orðið eftir þegar afi heitinn dó, væru mjög vel geymdar í mínum fórum,“ segir Dagur efins um hvort sagan sé á annað borð birtingarhæf. „Úr þessu varð mjög sérstök bolla sem boðið var upp á og alveg gríðarlega gott partí í foreldrahúsum. Þetta fór nú allt saman vel og kenndi mér að treysta fólki eins og amma gerði.“

Annasamt sumar

Þótt líti út fyrir ansi annasamt sumar í vinnu hjá Degi og eiginkonu hans Örnu Dögg þá stefna þau á að verja sem mestum tíma með fjölskyldunni.

„Það er númer eitt, tvö og þrjú eftir þennan vetur,“ segir Dagur. „Við ætlum í ferðalag í tilefni af afmælinu og stefnum á SKE-ball í Flatey en það er haldið einu sinni á ári. Að öðru leyti munum við spila þetta aðeins eftir hendinni.“

Það þarf þó ekki að leita langt yfir skammt og segist borgarstjórinn einna helst spenntur fyrir sumrinu í Reykjavík.

„Reykjavík er að koma til baka með öllum sínum kröftum og skemmtilegheitum eftir Covid. Núna verða þessar hátíðir sem lögðust af í faraldrinum, Gay Pride, Menningarnótt og fleira til. Ég held það verði óvenjumikið líf og fjör í borginni í sumar.“ n