Friðarsúlan á mjög sérstakan stað í mínu hjarta. Hún hefur að mínu mati haft mikil áhrif. Ég held að almennt þyki borgarbúum mjög vænt um listaverkið og bíði eftir þeim tíma þegar kveikt er á henni á haustin,“ segir Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu, en hún var sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar þegar ákveðið var að reisa listaverkið í Viðey.

Forsöguna má rekja til þess þegar Yoko Ono hélt sýningu á Kjarvalsstöðum seint á síðustu öld. Þá komst hún í góð kynni við Gunnar Kvaran, þáverandi forstöðumann safnsins. Svanhildur segir að skömmu eftir að hún tók við starfinu hjá Reykjavíkurborg hafi Gunnar nefnt við sig hugmyndir Yoko Ono um útilistaverk.

„Þetta voru svolítið óskýrar hugmyndir í upphafi en tengingin var við hugmynd um hús úr ljósi sem er að finna í Grapefruit sem er bók eftir Yoko. John Lennon sagðist vilja byggja hús úr ljósi í garðinum hennar. Hún var að hugleiða hvernig hún gæti minnst hans, hvernig hægt væri að byggja hús úr ljósi.“

Eftir að verkefnið fór af stað 2005 í samvinnu við Reykjavíkurborg og Listasafn Reykjavíkur var farið að skoða mögulegar staðsetningar. „Niðurstaðan varð sú að Yoko valdi Viðey. Henni fannst Ísland og Reykjavík áhugaverður kostur enda friðsælt og herlaust land. Hún lagði líka mikla áherslu á hreina orku til að búa til ljósið.“

Friðarsúlan var samvinnuverkefni Yoko Ono, borgarinnar og Orkuveitunnar. „Það var mikið ævintýri að fylgjast með hönnunar- og þróunartímanum og sjá þetta verða að veruleika þegar ljósið var fyrst tendrað 2007.“

Svanhildur telur að ákvörðun borgarinnar að taka þátt í verkefninu og leggja til staðinn hafi ýtt undir það að borgaryfirvöld hafi sýnt friðarvilja sinn í verki, meðal annars með stofnun Friðarsetur s í Höfða.

„Það er klárt mál að það að Yoko hafi valið þennan stað fyrir minnismerkið og þar með tengt hugsjónir þeirra tveggja um frið og jákvæða hluti við Reykjavík hefur skipti miklu fyrir borgina. Það er orðin sterk arfleifð í kringum verkið fyrir utan það hvað það er fallegt og skilaboðin og tilgangur þess göfug.“