Þetta er þvílík fæðing og henni fylgir bæði fögnuður og þreyta, segir Halldóra Arnardóttir listfræðingur. Hún er komin heim til Akureyrar frá Spáni með 400 blaðsíðna bók um föður sinn, Örn Inga Gíslason listamann. Bókin heitir Lífið er LEIK-fimi og var að mestu skrifuð á samnefndri sýningu í Listasafninu á Akureyri í fyrravetur.

„Ég lýsti sögu pabba fyrir grafíska hönnuðinum á Spáni. Þar kom meðal annars fram að hann vann í banka en þó honum liði þar vel félagslega fann hann sig ekki, ákvað að hætta og reyna fyrir sér sem myndlistarmaður. Faðir minn var þekktur fyrir sína gjörninga og bókin er lítill gjörningur. Utan um hana er askja úr stáli, kuldinn frá stálinu á að tákna bankastarfið. Bókin er hins vegar þakin blaðgulli og af henni stafar birta sem tákn um þá sköpun og það frelsi sem fylgir listinni.“

Halldóra kveðst hafa fengið marga samferðamenn til að segja frá Erni Inga í bókinni, hvernig var að vinna með honum og hvað hann skildi eftir. „Ég vildi vita hvað við getum lært af honum. Hann var stundum kallaður Gjörn Ingi og hann fékk byr og líka mótbyr. Ég vona að bókin verði fólki innblástur.“ Bókin kemur út á Amtsbókasafninu á Akureyri í dag og verður kynnt í Reykjavík í næstu viku.