Við ætluðum að halda útgáfuhóf í þessari viku í bókaútgáfunni Bjarti en urðum að aflýsa því út af kófinu,“ segir Björg Björnsdóttir sem keyrði frá Egilsstöðum til borgarinnar síðasta sunnudag, til móts við nýja ljóðabók sína, Árhringur. „Svo hugðist ég vera á ákveðnum tímum í Eymundsson svo fólk gæti komið þangað að sækja sér bók en enginn vill verða valdur að hópsmiti þannig að það var slegið af líka,“ heldur hún áfram. „Við notum bara netið og ég er með pantanir á um 300 bókum sem ég er að árita.“

Björg kveðst dvelja í stéttarfélagsíbúð og varla þora að hitta nokkurn mann. „Annars tók ég tveggja metra prik með til að halda örugg fjarlægðamörk,“ segir hún glettin. „Hitti systur mína í gær, við fórum bara í gönguferð og kölluðumst á.“ Ég spyr hvort reynt hafi verið að stemma stigu við flakki hennar fyrir austan. „Nei, en á Austurlandi eru engin smit og auðvitað viljum við halda því þannig. Þar er mælst til að fólk sem á brýn erindi til Reykjavíkur haldi sig til hlés í hálfan mánuð eftir að það kemur heim og ég hlíti því.“

Alltaf verið að skrifa

Árhringur – Ljóðræna dagsins er bók upp á 40 síður. Í fyrri hlutanum sækja ljóðin nöfn sín til gömlu mánaðaheitanna. Síðari hlutinn nefnist Hringur. Jón Ágúst Pálmason sá um kápuhönnun. „Hann er listamaður, einn þessara grafísku hönnuða sem kunna að teikna fríhendis,“ bendir Björg á. Þetta er hennar fyrsta bók en hún kveðst þó alltaf hafa verið að skrifa, unnið smásagnasamkeppni í menntaskóla og fengið birt eftir sig í ljóðabók stúdenta þegar hún var í háskólanum. „Svo lærði ég blaðamennsku í Frakklandi og starfaði hjá Ríkisútvarpinu hér heima, bæði útvarpi og sjónvarpi, var fréttaritari þess í Istanbul um tíma og fór svo til Parísar og vann á stórblaðinu Le Figaro,“ rifjar hún upp.

Byrjaði að yrkja á fésbók

Björg er uppalin á Egilsstöðum og flutti heim á æskuslóðirnar árið 2013. Þá hófst nýr kafli. „Í gegnum Herborgu Eðvaldsdóttur, vinkonu mína og leirlistakonu, kynntist ég hugmyndinni um flæði. Í því felst að hægt er að byrja á einhverju án þess að hafa hugmynd um hvernig það á að enda. Mér fannst það áhugavert. Sem blaðamaður hafði ég verið með ákveðinn ramma að vinna í, nú ákvað ég að sleppa þeirri hugsun og örva skapandi flæði. Því skrifaði ég daglega í eitt ár afmarkaðan texta sem ég kallaði ljóðrænu dagsins og fékk mikil viðbrögð á fésbók. Páll Valsson útgáfustjóri hjá Bjarti skrifaði að ef ég vildi gera eitthvað meira með efnið skyldi ég láta sig vita. Það kitlaði.“

Þegar Björg fór að vinna að bókinni þóttu henni ljóðrænur dagsins misgóðar og áhugaverðar, eins og dagarnir, að eigin sögn. „Ég sökkti mér í efnið. Það sem mér fannst standa upp úr er sú hringrás sem árstíðirnar skapa og við stöðvum ekki, hversu miklu sem við þykjumst geta stjórnað. Ég fann líka hvað náttúran spilar stórt hlutverk í okkar daglega lífi og að við verðum ríkari eftir því sem tímanum vindur fram, líkt og árhringir bætast í tré og jarðlög í landi.“

Bókina Árhringur tileinkar Björg föður sínum, Birni Þór Pálssyni, sem lést árið 2012. „Síðari kaflinn, Hringur, byrjar um jól og endar um jól. Það má hugsa hann sem árstímabil en hann er kannski meira æviskeið. Við erum bara ferðalangar í tíma og ég velti fyrir mér arfleifð kynslóðanna, hvað við fáum frá öðrum og hverju við miðlum sjálf áfram.“