Ef ég væri ríkur! er heiti tónleika í Salnum í Kópavogi í kvöld þar sem Bjarni Thor Kristinsson óperusöngvari fagnar 25 ára söngafmæli sínu. Þar verður í tilefni tímamótanna stiklað á stóru úr söngferli Bjarna.

„Það er frábær tilfinning,“ svarar Bjarni aðspurður hvernig það sé að fá að fagna 25 ára afmæli, aftur. „Þegar ég var að byrja að syngja vissi ég ekkert út í hvað ég var að fara og síðan er maður auðvitað glaður yfir að hafa fengið að vinna við það sem mann langaði til.“

Á tónleikunum verða flutt atriði og aríur úr óperum sem Bjarni hefur sungið í og hafa ekki alltaf ratað til Íslands. Þess á milli segist hann ætla að slá á létta strengi og syngja eitthvað nýtt. Tónleikarnir eru vel mannaðir en auk Bjarna syngja félagar úr Kammeróperunni, þau Lilja Guðmundsdóttir, Kristín Sveinsdóttir, Eggert Reginn Kjartansson og Unnsteinn Árnason. Píanóleikari er Ástríður Alda Sigurðardóttir.

„Þetta verður svona bland í poka,“ segir hann. „Markmiðið er nú samt að skemmta fólki og hafa gaman eins og í góðri afmælisveislu.“

Söngferill Bjarna hófst í tónlistarskólanum í Njarðvík og hefur hann síðan þá sungið með óperum víða um heim, allt frá Vínarborg til Feneyja. Þegar horft er um öxl á hann erfitt með að velja hvað stendur upp úr.

Mozart og Strauss standa upp úr

„Ég hef mikið fengið að syngja stór þýsk gamanhlutverk eins og baróninn í Rósariddaranum eftir Strauss og Osmin í Brottnáminu úr kvennabúrinu eftir Mozart,“ segir hann. „Svo hef ég mikið sungið Wagner sem mér finnst bæði krefjandi og skemmtilegt. Þá hefur mér alltaf þótt mjög vænt um að koma heim og syngja.“

Bjarni mun ekki sitja auðum höndum þegar veisluhöldum kvöldsins lýkur.

„Ég verð að leikstýra tvennu á næstunni, annars vegar erum við að halda áfram með Óperu og mat – Così fan tutte-sýningar sem verða í Gamla bíói núna í febrúar,“ segir hann. „Svo verð ég að leikstýra uppsetningu amerísku óperunnar Susannah fyrir Söngskóla Sigurðar Demetz. Ég er líka með ýmis verkefni erlendis, þar á meðal tvö Wagner-hlutverk. Það er nóg að gerast!“

Tónleikarnir í kvöld hefjast klukkan 20 og miðasala fer fram á tix.is.