Bíótekið, röð kvikmyndasýninga á vegum Kvikmyndasafns Íslands, hefst í þriðja skipti sunnudaginn 29. janúar í Bíó Paradís. Dagskráin hefst með tveimur íslenskum heimildarmyndum sem gera grein fyrir íslensku björgunarstarfi, Eldeyjunni frá 1973 og Björgunar­afrekinu við Látrabjarg frá 1949.

„Nú eru auðvitað fimmtíu ár síðan að gosið var og okkur fannst því við hæfi að sýna Eldeyjuna,“ segir Ester Bíbí Ásgeirsdóttir, verkefnastjóri hjá Kvikmyndasafninu.

Eldeyjan var gerð af þeim Páli Steingrímssyni, Ásgeiri Long og Ernst Kettler og sýnir í myndum bæði jarðhræringarnar og björgunarstarfið sem unnið var í kringum Heimaeyjargosið. Á sýningunni mun gestum einnig bjóðast að hlýða á frásögn frá fyrstu hendi af gosinu.

„Við verðum með spjall eftir sýninguna þar sem Ólafur Lárusson, sem upplifði gosið og er björgunarsveitarmaður í dag, mun ræða við áhorfendur um þessa reynslu sem hann hefur,“ segir Ester.

Björgunarafrekið við Látrabjarg eftir Óskar Gíslason fékk dreifingu víða um heim.
Mynd/aðsend

Björgunarafrekið við Látrabjarg segir svo frá því þegar meðlimir í björgunarsveitinni Bræðrabandinu, undir stjórn Þórðar frá Látrum, björguðu breskum skipbrotsmönnum af togaranum Dhoon árið 1947, eða fyrir 75 árum.

„Við verðum líka með sérfræðing frá Kvikmyndasafninu sem mun ræða um þessar myndir frá öðrum vinkli.“

Frönskum risa vottuð virðing

Samhliða því að skyggnst verður inn í þetta sögulega björgunarstarf verður einnig boðið upp á tvær myndir úr frönsku nýbylgjunni, þar á meðal Pierrot le Fou eftir leikstjórann Jean-Luc Godard sem lést í september síðastliðnum. Godard er af mörgum talinn einn áhrifamesti leikstjóri frönsku kvikmyndasögunnar og leikstýrði meðal annars myndum á borð við Alphaville og À bout de souffle.

„Við vildum sýna honum og hans verkum virðingu með því að sýna eina af eldri myndum hans,“ segir Ester og bætir við að tekist hafi vel til með Bíótekið eftir að það fór af stað í fyrra. „Þetta hefur verið rosalega vel sótt og vel tekið í þetta.“

Jean-Luc Godard lést í september.
Mynd/getty

Rauða þráðinn í Bíótekinu segir Ester vera að á hverjum sýningarsunnudegi verði eitthvað íslenskt úr safninu.

„Þar erum við að fara niður í okkar eigin safnkost en svo erum við líka með aðrar myndir sem gerðar hafa verið upp á öðrum kvikmyndasöfnum eða öðrum stofnunum,“ útskýrir hún en á erfitt með að segja til um hversu margar myndir séu til á safninu. „Við erum með langflestar útgefnar myndir sem gerðar hafa verið á Íslandi og svo erum við líka með gríðarstórt af filmum sem stundum koma úr einkaeigu eða frá kvikmyndagerðarmönnum sem tóku mikið efni en notuðu aðeins hluta þess í myndir sínar.“

Dagskrá Bíóteksins í heild má finna á heimasíðu Kvikmyndasafnsins.