Björn Einarsson fæddist í Reykjavík 2. júlí 1934. Hann andaðist á heimili sínu Hraunbraut 8 í Kópavogi þann 6. apríl 2018. Foreldrar  Björns voru Einar Ásgeir Guðbjartsson f. 15. september 1901, d. 15. október 1985 og Skúlína Theodóra Haraldsdóttir f. 5. ágúst 1900, d. 30. janúar 1988. 

Björn ólst upp í Reykjavík að Efstasundi 6, einn af sjö systkinum, systkini hans eru Kristín Jósefína, f. 18. mars 1927, d. 28. júlí 1995, Halldóra Guðbjört, f. 4. febrúar 1928, d. 2. júní 2014, Anton, f. 8. desember 1928, d. 10. apríl 2004, Haraldur, f. 24. febrúar 1937, d. 28. mars 1982, Hörður, f. 18. júlí 1940, d. 9. júlí 2016 og Hafsteinn, f. 11. maí 1942. Uppeldisbróðir Björns er Einar Guðbjartsson, f. 2. ágúst 1945, d. 27. ágúst 2016.

Þann 4. desember 1959 kvæntist Björn eftirlifandi eiginkonu sinni Önnu Magneu Valdimarsdóttur, f. 1. október 1938. Foreldrar hennar voru Valdimar Össurarson, f. 1. maí 1896, d. 29. júní 1956 og Jóna Bjarney Jónsdóttir, f. 11. október 1896, d. 9. maí 1986. Börn Björns og Önnu Magneu eru: 1) Ásgerður Theodóra, f. 24. ágúst 1959, sonur hennar frá fyrri sambúð er Björn Rúnar Benediktsson. Ásgerður er  gift Böðvari Héðinssyni f. 6. nóvember 1963, synir þeirra eru Héðinn Össur og Hörður Bersi. Dóttir Böðvars frá fyrri sambúð er Auður. 2) Brynhildur f. 9. október 1960, dóttir hennar frá fyrri sambúð er Margrét Björk Þór. Sambýlismaður Brynhildar er Páll Enos, f. 12. febrúar 1964. Sonur hans frá fyrri sambúð er Sigursteinn. 3) Valdimar Jón Björnsson, f. 6. mars 1963, giftur Hildi Ingólfsdóttur, f. 22. júlí 1966, börn þeirra eru Anna Magnea, Yrsa Hrund, d. 25. desember 1987, Oddur Aron, Lilja Bjarney og Sigurbjörg Katla. 4) Ingibjörg Ebba f. 31. ágúst 1965, dætur hennar eru Telma Glóey Jónsdóttir og Rebekka Unnur Rúnarsdóttir. 5) Sverrir Björnsson f. 4. desember 1974, giftur Herdísi Kristjönu Heiðarsdóttir, f. 1. nóvember 1978, dætur þeirra eru Sandra Rut, Andrea Ósk og Harpa Ösp. Langafabörn eru fimm: Áróra Kristín, Aðalsteinn Smári, Böðvar Darri, Máni og Iðunn Eva.

Björn fór ungur til sjós eða 13 ára gamall. Eftir að elsta barn þeirra hjóna fæddist kom hann í land og gerðist bílstjóri.  Hann var mikill fótboltaáhugamaður, dyggur stuðningsmaður Fram og lét sig sjaldan vanta á völlinn. Hann var mikill fjölskyldumaður og hafði gaman af því að ferðast um landið með fjölskyldunni og voru afabörnin og langafabörnin honum sérstaklega kær. 

Útför Björns fer fram í Kópavogskirkju þann 17. apríl 2018 og hefst athöfnin klukkan 13:00.

------------------------

Elsku afi minn, það er svo vont að hugsa til þess að þú sért farinn og að ég fái ekki að hitta þig aftur. Þú gast allt og kunnir allt. Ég vona að ég hafi lært sem mest af þér og því sem þú kenndir manni. Fjölskyldan var alltaf í fyrsta sæti hjá þér og þú elskaðir að vera til staðar fyrir hana. Þeir eru margir greiðarnir og reddingarnar sem þú átt inni en alltaf var það jafn mikið vesen að fá að gera eitthvað fyrir þig. Það eru forréttindi og heiður að hafa átt þig fyrir afa og vin. Ég á eftir að sakna þín svo mikið um ókomna tíð en minningin lifir um mesta snilling sem ég hef kynnst.

Þinn Bjössi (litli).

Okkar ástkæri afi. Það eru svo margar minningar sem við eigum um þig sem ylja okkur um hjartarætur þegar við minnumst þín. Heimili ykkar ömmu á Hraunbraut var eins og ævintýraheimur út af fyrir sig. Þar gátum við gleymt okkur á smíðaverkstæðinu með þér, bardúsað í dótinu uppi, í spilunum með ömmu og svo auðvitað við leik úti í garðinum stóra.

Við eigum öll góðar minningar með þér á Valbjarnarvellinum, að sjálfsögðu að styðja Fram, mismikill var þó áhuginn fyrir fótboltaleiknum sjálfum. Þegar þú fórst með okkur Héðin og Hörð á  fótboltaleiki, þá keyptir þú svo mikið nammi fyrir okkur að aðrir stuðningsmenn gengu upp að okkur og héldu að við værum að selja nammi.

Minningarnar af sendiferðabílnum eru líka margar. Mjög minnisstætt er þegar þú sóttir mig, Auði, á honum til þess að fara upp á spítala að heimsækja Héðin nýfæddan, þá fóru foreldrar mínir að hlæja þegar við komum upp á spítala, því ég hafði stokkið út á náttkjólnum og í stígvélunum einum saman. Við vorum sko ekkert að kippa okkur upp við það í þessu hamingjukasti yfir litla bróður, en við hlógum að þessu í mörg ár.

Okkur fannst svo gaman að hlusta á sögurnar þínar um það sem þú gerðir á þínum yngri árum, prakkarastrikin og hvernig þið amma kynntust. Þú sagðir svo skemmtilega frá að okkur leið eins og við hefðum verið á staðnum. Það var alltaf stutt í spaugið hjá þér og jafnvel á erfiðum stundum gastu létt lundina og látið öllum líða vel. Þannig varstu líka á þínum síðustu dögum, það var aðdáunarvert að sjá og lét okkur líða vel. Við vorum dekruð af ást, leik og nammi. Þú varst alltaf til staðar fyrir okkur börnin og gerðir allt fyrir alla. Þú varst sterkasti og duglegasti maður sem við höfum þekkt.

Elsku afi okkar, hvíldu í friði og takk fyrir allar þær hlýju minningar sem við eigum saman.

Þín barnabörn,

Bjössi, Auður, Héðinn og Hörður

------------------------

Mér er það bæði ljúft og skylt að minnast elskulegs tengdaföður míns Björns Einarssonar sem nú hefur kvatt þennan heim eftir stutta en erfiða sjúkdómslegu. Ég hef þekkt Bjössa og Möggu tengdamömmu í nær 25 ár. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að ég hafi þekkt þau lengur en foreldra mína og kannski þess vegna sem við höfum átt svo ríkan þátt í lífi hvors annars. Ég hitti Bjössa fyrst yfir kaffispjalli þar sem hann talaði um allt mögulegt og sagði frá ýmsum hversdagslegum hlutum eins og um stórviðburði væri að ræða. Ég komst að raun um síðar meir að þetta var einn af hans góðu eiginleikum. Eftir þessi fyrstu kynni okkar leið mér eins og ég hefði alltaf þekkt hann og upp frá því fannst mér alltaf gott að vera nálægt honum og ég sóttist eftir því.

Þegar við hittumst ræddum við oft stöðuna í landsmálunum eða fótbolta og var það aðdáunarvert að sjá hversu trúr hann var sínum skoðunum og sínu félagi sem var Fram. Hann hafði skoðun á öllu og var oft hnyttinn í tilsvörum. Bjössi var mikill fjölskyldumaður og naut sín best innan um fjölskylduna þá var hann hrókur alls fagnaðar með sitt spaug. Hann vildi allt fyrir barnabörnin gera, hann var skemmtilegur afi og iðinn við að segja sögur af þeim. Bjössi og Magga tengdaforeldrar mínir tóku mér einstaklega vel alveg frá byrjun, kannski vegna þess að enginn var tengdasonurinn fyrir. Við Bjössi urðum strax góðir vinir og miklir mátar. Ég tók strax eftir því hversu samhent þau hjónin voru þó hvort á sinn hátt og allt sem þau bardúsuðu saman tókst svo vel til að úr varð hið mesta ævintýri og saga að segja frá. 

Það var ýmislegt sem við Bjössi baukuðum saman. Bjössi kunni margt fyrir sér og var laginn í höndunum. Það var ósjaldan sem við settumst niður til skrafs og ráðagerðar um hvernig best væri að bera sig að við það sem við vorum að bauka. Við nutum þess að spekúlera fram og til baka. Það er nauðsynlegt að spekúlera í hlutunum sagði Bjössi. Það var hans mottó í lífinu. Mér er minnisstætt þegar ég hóf að saga í borðplötu fyrir eldhúsvaski. Þá varð Bjössa á orði að þarna hefði ég verið mjög áræðinn og rifjaði hann oft upp þetta atvik og henti gaman af.

Á meðan börnin okkar voru lítil þá hófst hvert sumarfrí á ferðalögum um landið og alltaf var jafn gaman hjá okkur. Þá var mikið spáð í veðrið og þar var Bjössi á heimavelli. Sérstaklega eru hálendisferðirnar minnisstæðar. Við vorum líka svo lánsöm að fara saman í utanlandsferðir. Fyrsta ferðin markaði tímamót sú ferð gaf þeim ótrúlega mikið og þau þreyttust aldrei á að rifja hana upp. Þá keyrðum við um Spán og Frakkland. Bjössi naut sín vel í frönsku sveitinni, hann var eins og franskur bóndi með pípuna sína að spekúlera í lífinu og tilverunni á þessum framandi slóðum. Þannig minnist ég hans. Elsku besta tengdamamma, mikill er missir þinn. Ég samhryggist þér innilega. Það verður skrítið að sjá ykkur Bjössa ekki aftur saman á þessu jarðríki en ég veit þú geymir hann í hjarta þínu. Lífið heldur áfram og ég veit að þú munt spjara þig.

Þinn tengdasonur,
Böðvar Héðinsson