Bjarni Gíslason fæddist í Reykjavík þann 17. juli 1929. Hann lést 25. ágúst á Landsspítalanum. Foreldrar hans voru Gísli Ingimundarson, f. 21. 10. 1897, d. 5. maí 1976, og Helga Bjarnadóttir, f. 17.3. 1905, d. 12. 6. 1980. Bjarni var elstur af fjórum systkinum. Þau eru María Gísladóttir, f. 1. 12. 1930, d. 2.1. 1994, Trausti Gíslason f. 10. 6. 1936 og Emil Gíslason, f. 9. 8. 1940, d. 22.8. 1996. Hinn 18. nóvember 1950 kvæntist Bjarni Erlu Þorvaldsdóttur f. 9. 11. 1931 d. 10.3. 2014. Foreldrar Erlu voru Kristín Súsanna Elíasdóttir f. 11. 7. 1896, d. 22. 10. 1985 og Þorvaldur R. Helgason f. 3.10. 1893, d. 26. 10. 1974. Börn Erlu og Bjarna eru: 1) Helga Bjarnadóttir, f. 17.3. 1951, d. 24.6. 2009. Maki Eggert Valur Þorkelsson. Börn Helgu eru: Sigríður Margrét Einarsdóttir, f. 13.10. 1972. Maki Einar H. Rögnvaldsson. Börn: Fjölnir Þór Einarsson, f. 10.1. 1996, Einar Örn Steinarsson, f. 25.8. 1999, Emilía Ósk Steinarsdóttir, f. 17.2. 2003. Einar Geir Einarsson, f. 20.9. 1974. Maki María Ósk Einarsdóttir. Börn: Rebekka Lind, f. 20.6. 2005, Máni Geir f. 27.3. 2015. Bjarni Þór Einarsson, f. 20.9. 1974. Maki Guðlaug Jóhannsdóttir. Börn: Aron Þór, f. 18. 2. 2008, og Helga, f. 22.10. 2010. Erla Rut Eggertsdóttir, f. 17.7. 1994, maki Ingi Óli Andersen. Barn: Óliver Leó f. 2.8. 2018. Börn Eggerts fyrir eru: Sunneva f. 14.10. 1975, Hulda Margrét f. 18. 2. 1979, Gísli Valur f. 11. 9. 1981 og Gunnar Örn f. 3.2. 1983. 2) Þórir Bjarnason , f. 8.6. 1956. Maki Sigrún Gunnlaugsdóttir. Börn Þóris eru: Ása Lára Þórisdóttir, f. 5.7. 1978, maki Sigurður Hervinsson. Börn: Ólöf Erla, f. 10.12. 2004, og Gabríel Þór, f. 24.12. 2007. Erla Súsanna Þórisdóttir, f. 17.2. 1982. Maki Freyr Alexandersson. Börn: Alexandra Ósk, f. 17.9. 2008, Embla Marín, f. 7.9. 2010 og Daníel Freyr f. 21.8. 2018. Fanney Ósk Þórisdóttir, f. 25.10. 1991. Maki Sigurður Rósant Júlíusson. Börn: Þórir Jökull, f. 26.3. 2013 og Leó Rósant f. 3.10. 2018. Börn Sigrúnar fyrir eru: Hulda Dagbjört f. 18.5. 1968, Sóley f. 21.10. 1973 og Davíð f. 21.1. 1979. 3) Anna Kristín Bjarnfoss f. 18.1. 1964. Maki Carsten Frøslev. Börn Önnu: Brynjar Árni Heimisson Bjarnfoss, f. 29.6. 1986. Maki Adina Semanek. Benjamin Frøslev Bjarnfoss f. 9.5. 2006. Börn Carstens fyrir eru Mattías f. 28.1. 1991, Sebastían f. 7.7. 1995, Magnús f. 8.6.1997.

Bjarni ólst upp í Reykjavík og lauk meistaraprófi í málaraiðn 28. mars 1950 fra Iðnskólanum í Reykjavík.  Hann starfaði sem málarameistari um langt árabil. Síðustu 16 árin af starfsferlinum starfaði hann sem húsvörður i Frímúrarahúsinu í Reykjavík. Bjarni var lengi liðtækur félagi i Málarameistarafélagi Íslands, Karlakór Reykjavíkur og Frímúrarareglunni á Íslandi. Bjarni bjó alla ævi í Reykjavík með eiginkonu sinni fyrir utan árin 1972-1984 er þau bjuggu í Silfurtúni í Garðabæ. Útför Bjarna fer fram frá Vídalínskirkju i dag, 4. september 2019, og hefst athöfnin kl. 13.00.


Í dag kveðjum við elsku pabba okkar sem glaður náði að fagna níræðisafmæli sínu sl. júlí í blíðskaparveðri. Fyrir það erum við þakklát í dag. Pabbi var traustur og ábyggilegur maður og stóð með sínu fólki. Oft hrjúfur á yfirborðinu og lá ekki á skoðunum sínum ef honum mislíkaði eitthvað. En það var líka stutt í glettnina, og var þá blikkað með öðru auganu og brosið læddist fram. Hann var alla tíð mikill vinnuþjarkur og allt sem hann tók sér fyrir hendur var gert af miklu atlæti. Hugur og minni voru í góðu lagi til hins síðasta. Hann fylgdist vel með þjóðmálum og heimsmálum og hafði skoðanir á reiðum höndum þegar nýjustu fréttir bárust í tal. Hann var með eindæmum músíkalskur og þurfti einungis að heyra lag einu sinni til að geta spilað það á píanóið af fingrum fram. Við eigum margar minningar af honum við píanóið með fjölskyldu og vinum. Jazz var hans uppáhald en hann spilaði líka vinsælustu lögin hverju sinni, jólalögin í jólaboðunum og yfirleitt öll þau lög sem hlustendaskarinn bað um. Pabbi elskaði að syngja. Með sinni djúpu bassarödd söng hann í yfir 40 ár í Karlakór Reykjavíkur. þeir eru fjölmargir tónleikarnir sem hann tók þátt í í gegnum árin og hafði alltaf jafn gaman af. Félagsskapurinn í kórnum var honum og mömmu mikils virði og tóku þau virkan þátt i félagsstarfinu í mörg ár.

Það var stór viðburður á okkar bernskuárum þegar ferð til útlanda var á döfinni og gjarnan kallað í þá daga ”að fara í siglingu”. Mamma og pabbi fóru í mörg ferðalögin með kórfélögunum og þess utan var hin fræga Baltica ferð til Miðjarðarhafsins 1966 lengi í minnum höfð. Þvílíkar framandi gjafir sem voru færðar okkur börnum úr þeirri ferð! Við fórum ”í siglingu” með mömmu og pabba í fyrsta skipti þegar við vorum 10 og 18 ára. Þar á undan voru það útilegur á suðvestur horni landsins sem dönnuðu rammann um ferðalög fjölskyldunnar. Leiðin lá til Bandaríkjanna og Kanada og var það ógleymanleg ferð. Árin eftir fórum við saman til Norðurlandanna, Búlgaríu og Spánar og nutum hvers augnabliks. Seinna meir lá leiðin oft til Danmerkur til yngstu dótturinnar sem þar bjó og ótaldar eru ferðirnar upp í sumarbústað þeirra Þóris og Sigrúnar á Þingvöllum sem heitir Birkihóll eftir sumarbústað gömlu hjónanna í Reykjaskógi til margra ára. Birkihóll var þeirra líf og yndi. Alltaf voru verkefni í gangi. Byggja við og bæta og gera land og bústað fallegra með hverju árinu sem leið. Margar voru þær haldnar grillveislurnar á Birkihóli með ljúffengu lambalæri og tilheyrandi meðlæti. Þá voru þau gömlu í essinu sínu.

Pabbi og mamma bjuggu á Dvalarheimilinu Grund síðustu ár ævinnar. Þar undu þau hag sínum vel þrátt fyrir hrakandi heilsu mömmu sem lést fyrir fimm árum. Pabbi saknaði hennar fram á síðasta dag og er það huggun harmi gegn að vita að þau eru nú sameinuð á ný ásamt Helgu systur okkar og öðrum góðum sálum. Við viljum þakka öllu starfsfólkinu á Dvalarheimilinu Grund fyrir þeirra góðu umönnun og hlýju í garð foreldra okkar. Blessuð sé minning þín elsku pabbi.

Þórir og Anna Kristín