Bílaklúbburinn Krúser fagnar sextán ára afmæli í dag en hann var stofnaður þann 3. mars 2006.

Helstu markmið klúbbsins eru að viðhalda klassískum bílum og stuðla að varðveislu þeirra, standa vörð um hagsmunamál bifreiðaeigenda, að stuðla að góðakstri félaga og efla samstöðu milli annarra bílaklúbba.

„Þetta hófst snemma 2006 þegar menn voru að rúnta á fallegum bílum og það kom til tals að stofna klúbb í kringum það,“ segir Hjálmar Hlöðversson, formaður Krúsers. „Í dag er þetta félagsskapur með um þúsund félaga og mikið til af gömlum bílum.“

Krúser hefur húsakynni við Höfðabakka þar sem geymdir eru einir nítján bílar í sal yfir vetrarmánuðina. Þar er einnig félagsaðstaða fyrir ýmiss konar viðburði sem klúbburinn stendur fyrir.

Hjálmar segir bílaflóru klúbbsins fjölbreytta.

„Það er mikið af nýjum sportbílum sem og gömlum,“ segir hann. „Mikið til eru þetta amerískir bílar og evrópskir, og rússneskir líka auðvitað.“

Fimmtudagsrúnturinn

Félaga í Krúser segir Hjálmar vera á öllum aldri.

„Þetta er mjög breiður aldurshópur, alveg frá þeim sem eru rétt nýkomnir með próf. Strákar hafa mikinn áhuga á bílum, sama hvort þeir eru sautján ára eða sjötugir.“

Starf Krúsers fer að mestu fram yfir sumarmánuðina þar sem Hjálmar segir að reynt sé að rúnta hvern fimmtudag. „Við reynum að taka Laugaveginn og miðbæinn til að sýna bílana og sjá aðra,“ segir hann og bætir við að ekki sé mikið planað af hátíðarhöldum í tilefni dagsins. „Við bíðum með það fram á vormánuðina. Svo höfum við alltaf verið á 17. júní á Tjarnarbrúnni og ekið Laugaveginn.“

Hjálmar segir að það sé alls ekkert verra að vera með klassískan bílaklúbb í því veðravíti sem Ísland getur stundum verið. „Ég er sjálfur með blæjubíl og maður getur nú yfirleitt alltaf rúntað þegar veðrið er gott.“

Að lokum bendir Hjálmar áhugasömum á að kynna sér klúbbinn frekar á vefsíðu hans þar sem má meðal annars finna ógrynni af myndum af bílum teknum af meðlimum klúbbsins.