„Mér er sagt að ég sé í undirbúningsnefnd. Að minnsta kosti hefur verið botnlaust að gera,“ segir Sigurður Heiðar Birgisson á Ríp í Hegranesi glaðlega.

Hann er framkvæmdastjóri Íslandsmótsins í hestaíþróttum 2021 sem verður sett á Hólum í Hjaltadal í dag klukkan 13.30.

Sigurður segir sterka keppendur komna á svæðið.

„Það eru bara 30 efstu hestar í fullorðinsflokki og 20 efstu í ungmennaflokki sem komust inn á mótið. Þar er farið eftir nýjum reglum sem Landssamband hestamanna setti.“

Nýju reglurnar hafa ekkert með Covid að gera, að sögn Sigurðar, hins vegar hafi óvissa ríkt um með hvaða hætti mótið gæti farið fram, þegar undirbúningur hófst um miðjan vetur.

„Við vorum geysilega ánægð þegar öllum takmörkunum var aflétt.“

Sigurður segir keppendur hafa byrjað að streyma með hesta sína í Hjaltadalinn um síðustu helgi.

„Fólk vill hafa fákana ferska og klára, fara yfir dagskrána, æfa sig á vellinum og stilla hestana inn á nýtt umhverfi og aðstæður,“ lýsir hann.

„Svo er veðrið frábært og spáin ótrúlega góð, við virðumst ætla að hafa heppnina með okkur. Því hefur ekki alltaf verið að heilsa á hestamótum hér. Á síðasta Íslandsmóti barna og unglinga fór allt á flot. Núna er meira áhyggjuefni að skeiðvöllurinn verði of þurr en við erum að dæla vatni á hann með haugsugum. Það er ákveðin kúnst að halda kjörrakastigi þannig að hann sé hestvænn. En veðrið lofar góðu fyrir fólk.“

Spurður um hápunkta mótsins svarar Sigurður:

„Það er alltaf stemning kringum kappreiðar, þær fara fram bæði í kvöld og fimmtudagskvöld og svo úrslitadagana sem verða laugardagur og sunnudagur.“

Hann getur þess að mótið verði í beinni á alendis.tv og þar og á heimasíðu mótsins séu allar upplýsingar. Áhorfendum er alltaf að fjölga, að sögn Sigurðar.

„Það er frítt inn og engin miðasala svo ég hef engar tölur,“ útskýrir hann.

„Ef vel viðrar um helgina er viðbúið að enn fleiri drífi sig hingað í útilegu og horfi á fallega hesta.“