Norræni votlendisdagurinn er nýliðinn. Þá bárust þær fréttir að Þorfinnur Hermannsson og Jófríður Gilsdóttir, landeigendur á Hofi í Norðfirði, ynnu að því að endurheimta votlendi á jörðinni með stuðningi Votlendissjóðsins. Með aðgerðinni endurheimta þau tæpa 16 hektara (um 16 fótboltavelli) og stöðva árlega losun upp á 318 tonn af koltvísýringi (CO2). Til samanburðar losar nýr lítill fólksbíll 1-2 tonn á ári. Mikið fuglalíf er á svæðinu sem mun njóta góðs af framkvæmdinni.

„Frúin er í útlandinu en ég er byrjaður að fylla skurðina, er búinn með fimm í hlíðinni fyrir ofan bæinn á jafnmörgum dögum,“ segir Þorfinnur þegar ég hringi í hann. Ekki kveðst hann sjá teljandi breytingar á landinu ennþá. „En smá sprænur sem áður fóru í skurðina ganga núna út í túnið og væta í því.“

Þorfinnur segir landið ekki hafa verið notað í mörg, mörg ár. „Þegar kvótakerfið kom datt hefðbundinn búskapur niður á fáum árum hér í Norðfjarðarsveit nema á einum bæ, Skorrastað, þar er mjólkurbúskapur. Áður þjónaði þessi sveit Neskaupstað með landbúnaðar­afurðir. Þetta var passleg stærð að því leyti. Foreldrar mínir voru bæði með kýr og kindur og þetta var svona með stærri búum í sveitinni. Við Jófríður vorum hér aldrei með búskap en eigum helminginn af jörðinni. Fengum á sínum tíma gefins hús úti í kaupstað og fluttum það hingað.“

Hér hefur skurður verið fylltur og það ætti að hækka grunnvatnsstöðuna.

Þar sem Þorfinnur er að vinna voru ruðningar enn á skurðbökkunum og hann er að róta þeim ofan í skurðina. „En svo eru tún hér í botni fjarðarins og þegar þau voru ræktuð voru ruðningarnir sléttaðir út. Það er miklu erfiðara að fylla þá skurði. Ég næ í einhverjum tilfellum að stífla þá og við það hækkar vatnsborðið. Í framhaldinu ætla ég að grafa tjarnir og efnið sem upp úr þeim kemur fer líka í skurðina.“

Þorfinnur er bæði með gamla jarðýtu og nýja gröfu í þjónustu sinni. „Þegar foreldrar mínir bjuggu hér var megnið af túnunum notað til heyræktar. Á þeim tíma sem hér var grafið voru góðir styrkir í gangi frá ríkissjóði og menn grófu og grófu. Rannsóknum var bara ábótavant og ekkert talað um votlendi sem verðmæti á nokkurn hátt.

Við hjónin vorum búin að tala um það fyrir mörgum árum að fara í þessar framkvæmdir en þá var ekkert fjármagn til að kaupa gröfu. En þegar Eyþór Eðvarðsson, aðalgúrúinn í Votlendissjóðnum, kom þá kveikti hann í okkur. Það er margt fólk sem trúir ekki á þetta en okkur finnst þetta tilraunarinnar virði. Við berum öll ábyrgð á jörðinni.“