Það vill svo til að ég er að vinna bæði í byggðasafninu hér á Ísafirði og á skrifstofu tónlistarskólans,“ segir Súgfirðingurinn Finney Rakel Árnadóttir, safna- og þjóðfræðingur. „Ég hef náttúrlega kynnst skólastjóranum, Bergþóri Pálssyni, og Albert Eiríkssyni, manninum hans. Það fylgir þeim ferskur andblær og hugmyndaauðgi og þeir hafa áhuga á að koma upp sýningu um Húsmæðraskólann Ósk í tónlistarskólanum og minnast þannig upprunalegs hlutverks hússins. Eftir því hefur líka verið kallað hér í samfélaginu. Ýmsir sem þangað koma gætu hugsað sér að ganga inn í einhvers konar tímahylki sem segði sögu húsmæðraskólans því yfir hann var húsið byggt og tekið í notkun árið 1948. Því erum við að óska eftir myndum og minningabókum, vefnaði, útsaum, uppskriftbókum, skólaspjöldum og sögum.“

Finney segir húsið fallegt og bera vel muni fyrri tíðar. „Hér hefur verið reynt að halda í það upprunalega, eftir föngum. Á kaffistofunni okkar er gamla eldhúsinnréttingin úr skólanum. Í skólastofunum eru hillur sem voru í námsmeyjaherbergjum áður og svo eru gamlar hurðir og merkingar. Ein skólastofan heitir Saumastofa! Þannig að það eimir eftir af þessum gamla anda. En við höfum nóg veggpláss fyrir myndir og hannyrðir og tengibygging milli gamla hússins og Hamra hentar vel fyrir sýningu.“

Kvenfélagið Ósk á Ísafirði hefur nýlega látið byggðasafninu í té muni sem voru teknir úr húsinu þegar því var breytt í tónlistarskóla, að sögn Finneyjar. „Þar eru húsgögn, myndir og kennslubækur. Eflaust getur eitthvað af því nýst á sýninguna. Svo er strax byrjað að hringja í mig með sögur um menn sem klifruðu upp á svalir með krókum og köðlum. Fólk hefur frá ýmsu að segja. Byggðasafnið stendur bak við þessa söfnun þó við Albert séum í forgrunni og það skal tekið fram að þó fólk láti muni á sýninguna þarf það ekki að vera til eignar.“

Arkitekt hússins sem enn er merkt Húsmæðraskólanum Ósk var Guðjón Samúelsson.