Jazzklúbburinn Múlinn hefur undanfarið verið að vakna til lífsins og stendur þessa dagana fyrir kraftmikilli vordagskrá. Í kvöld verða tónleikar í Flóa í Hörpu þar sem kvartett Sigurðar Flosasonar mun hylla einn helsta frumkvöðul djassins, Charlie Parker.

„Ég get alveg staðfest að hann hefur haft mikil áhrif á ekki bara mig, heldur flesta djasstónlistarmenn að einhverju leyti,“ segir Sigurður um Parker sem var einn helsti frumkvöðull bebop-stefnunnar sem komst á skrið í kringum árið 1945. Þar áður hafði swing-tónlist verið allsráðandi í senunni en nú tóku við breyttir tímar.

„Tónlistin fór frá því að vera popptónlist síns tíma, í að verða til listarinnar vegna,“ segir Sigurður. „Hún hætti að taka tillit til dansmenntar, en á swing-tímanum miðaðist tónlistin mikið við dans, til dæmis hvað varðar hraða á lögum.“

Bebopið var hins vegar fyrst og fremst hugsað til hlustunar. „Parker, Dizzy Gillespie og aðrir frömuðir í þessari stefnu voru gríðarlega flinkir hljóðfæraleikarar sem settu ný viðmið – hástökksráin var hækkuð allhressilega með tilkomu þeirra.“

Merkileg saga Charlies Parker er þó líka sorgleg en hann lést aðeins 34 ára gamall vegna heróínneyslu. „Þetta var því miður ansi algengt á þessum tíma,“ segir Sigurður. „Margir fóru út í neyslu einmitt vegna þess að Parker var sjálfur í neyslu. Hann var svo langt á undan sínum tíma og svo öflug fyrirmynd að margir töldu sér trú um að ef þeir færu sömu leið og hann þá gætu þeir spilað á sama plani.“

Tónleikarnir hefjast klukkan 20 í kvöld í Hörpu og er hægt að nálgast miða í miðasölu eða á tix.is.

Hausamynd: Sigurður Flosason tónlistarmaður